Keppnin hefur verið haldin á hverju ári í yfir þrjátíu ár og er á vegum sveitarfélagsins sem skaffar keppendum færi og beitu. Fjölmörg börn voru mætt á bryggjuna, ýmist með foreldrum sínum eða leikjanámskeiðahópum úr Hafnarfirði. Það er þó ekki alltaf góð veiði.
„Í gamla daga veiddum við mjög vel, það var áður en það var búið að hreinsa hér strandirnar, skólpið fór beint í ströndina og menn veiddu slatta. Nú veiðast kannski 30-40 fiskar yfir daginn, ekki meira en það,“ segir Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, sem sér um keppnina. Hann var einnig einn af þeim sem hélt fyrstu keppnina fyrir rúmum þrjátíu árum.

Þrátt fyrir erfiða veiði í gegnum árin voru krakkarnir vongóðir á bryggjunni áður en keppnin hófst.
„Ég er að svona veiða og ég er að reyna að veiða svona rosalega stóran fisk og svona alls konar,“ segir Steinar Pálmi Ólafsson, sex ára veiðimaður.
Hvað veiðir þú marga fiska í dag?
„Ég veit það ekki, ég held að ég veiði kannski svona fimm fiska, en ég er alltaf úti á bryggju að veiða og ég náði einu sinni að veiða fisk með franskri kartöflu.“

Hin átta ára Emma var einnig stórhuga.
Hvað ætlarðu að veiða marga fiska í dag?
„Ég veit það ekki, kannski hundrað fiska,“ segir Emma.

Og fór það sem svo að 350 veiðimenn mættu á svæðið og unnu bæði Emma og Steinar til verðlauna. Emma veiddi næst mest af öllum, alls fimm fiska, sama og Starkaður sem er sex ára gamall. Sú sem veiddi hins vegar mest var hin níu ára gamla Ebba Katrín sem veiddi níu fiska.

Steinar fékk síðan verðlaun fyrir að veiða stærsta fiskinn. Hann landaði 315 gramma kola en fengu þau öll fjögur veiðistangir í verðlaun.