„Okkur hefur ekki verið sagt nákvæmlega hvernig þau ætla að útlista þetta en okkur hefur verið lofað því að það muni ekki koma til þess að við munum þurfa að loka í haust eins og við gerðum áður ráð fyrir,“ segir Sara Martí Guðmundsdóttir, leikhússtýra Tjarnarbíós í samtali við Vísi.
Áður hefur komið fram að þrátt fyrir metsöluár og mikla velgengni dugi núverandi styrkir ekki fyrir rekstri leikhússins. Gerði Sara ráð fyrir því að leikhúsið myndi þurfa að loka dyrum sínum í haust en nú hefur lending náðst í málinu.
Í tilkynningu frá leikhúsinu segir að Menningar-og viðskiptaráðuneytið hafi átt í samtali við Reykjavíkurborg um að finna lausn á bráðavanda Tjarnarbíós og um leið að horfa á sameiginlega lausn til framtíðar.
Sara Martí segir að ætlunin sé að ríkið, borgin og aðstandendur leikhússins fari í allsherjar þarfagreiningu á rekstri sjálfstæðra sviðslista hér á landi í kjölfarið. Hún segir eðli málsins samkvæmt vera létt vegna niðurstöðunnar.
„Það var mjög erfitt að vita ekki fyrir sumarfrí hvort við værum að fara að vera með vinnu aftur í september. Mér er geysilega létt að vita af því bæði fyrir okkur starfsfólkið en líka sjálfstæðu leiklistarsenuna í heild.“
Hún segir næsta leikár vera pakkað og skipulagt í þaula. Gleðitíðindi séu fólgin í því að sjálfstætt starfandi listafólk fái áfram sinn vettvang í Tjarnarbíó.
„Það er ótrúlega mikilvægt því við getum ekki framkvæmt listina okkar nema vera með svið. Það er gleðilegt að þurfa ekki að velta rekstrinum fyrir okkur ár eftir ár líkt og ríki og borg leggja nú upp með.“