Tillaga um breytingar á fyrirkomulagi gjaldtöku fyrir bílastæði í Reykjavík var samþykkt og staðfest fyrir helgi. Hún felur meðal annars í sér að gjald á gjaldsvæði númer 1 hækkar úr 430 krónum í 600 krónur, og gjaldtökutími lengist.
Auk verðhækkunar á svæði eitt, verður gjaldtökutíminn á svæðum eitt og tvö, sem eru rauð og blá á skýringarmyndinni hér að neðan, lengdur til klukkan níu á kvöldin, bæði á virkum dögum og um helgar. Eins verður settur á hámarkstími upp á þrjár klukkustundir á gjaldsvæði eitt. Þá hefur gjaldskylda verið afnumin á gjaldsvæði þrjú, sem er grænt á myndinni.

Þótt breytingin hafi þegar verið samþykkt og staðfest mun hún ekki taka gildi fyrr en ný auglýsing um gjaldskyldu hefur verið birt í stjórnartíðindum, samkvæmt formanni skipulags- og umhverfisráðs er ekki útlit fyrir að það verði að veruleika fyrr en með haustinu.
Deildarstjóri hjá bílastæðasjóði segir breytinguna aðeins byggða á gögnum sem fáist eftir reglulegar talningar.
„Og ef nýting fer yfir ákveðna prósentu, 85 prósent, þá eru lagðar til breytingar. Annað hvort til hækkunar eða breytingar á gjaldsvæðum. Að sama skapi, ef nýting fer undir 60 prósent, þá eru líka skoðaðar breytingar í hina áttina,“ segir Rakel Elíasdóttir, deildarstjóri reksturs Bílastæðasjóðs.
Dýrustu stæðin í Köben
Gögnin sýni að bílastæði í miðbænum hafi verið mikið nýtt að undanförnu.
„Þeir sem leggja til lengri tíma, við viljum hvetja þá til að leggja í bílahúsin okkar eða í öðrum svæðum þar sem er minni ásókn í stæði.“
Þegar nýja verðið á svæði eitt, svæðinu þar sem dýrast er að leggja, er borið saman við nágrannahöfuðborgir Íslands á gengi dagsins í dag kemur í ljós að bílastæði í Reykjavík eru ódýrari en í Stokkhólmi, Ósló og Kaupmannahöfn. Dýrast er að leggja á dýrasta svæðinu í Kaupmannahöfn, þar sem klukkustundin á dýrasta svæðinu kostar 819 krónur.
Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að bílastæði væru ódýrari í Ósló og Stokkhólmi en í Reykjavík. Það hefur nú verið leiðrétt.