Formúla 1

Formúla 1 snýr aftur til Kína á lengsta tímabili sögunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lewis Hamilton bar sigur úr býtum síðast þegar kínverki kappaksturinn var haldinn árið 2019.
Lewis Hamilton bar sigur úr býtum síðast þegar kínverki kappaksturinn var haldinn árið 2019. Vísir/Getty

Í fyrsta sinn síðan fyrir kórónuveirufaraldurinn mun Formúla 1 snúa aftur til Kína á næsta tímabili.

Kínverski kappaksturinn átti að snúa aftur á þessu tímabili, en vegna óvissu í landinu vegna kórónuveirufaraldursins í upphafi árs var ákveðið að blása kappaksturinn af. Í upphafi þessa árs voru enn strangar samkomutakmarkanir í gildi þar í landi og óeirðir ríktu á götum úti vegna þeirra.

Samkomutakmörkunum hefur þó verið aflétt og því verður hægt að halda kappaksturinn.

Það verða því alls 24 keppnir á næsta tímabili, sem er met. Á yfirstandandi tímabili áttu einnig að vera 24 keppnir, en hætt var við bæði kínverksa kappaksturinn og ítalska kappaksturinn.

Næsta tímabil hefst í Sádi-Arabíu áður en haldið verður til Barein, en þær keppnir verða haldnar á laugardögum í staðinn fyrir sunnudögum vegna áhrifanna sem þær myndu hafa á íslömsku hátíðina Ramadan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×