Innlent

Vilja að þing verði kallað saman vegna Lindar­hvols

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Vísir/Arnar

Þing­menn Mið­flokksins hafa óskað eftir því við for­sætis­ráð­herra að hann leggi fram til­lögu til for­seta Ís­lands þess efnis að þing verði kvatt saman til að ræða þær upp­lýsingar sem fram koma í ný­birtri Lindar­hvols­skýrslu.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá þing­flokki Mið­flokksins. Vill þing­flokkurinn að þing verði kallað saman með vísan í 2.mgr. 23. greinar stjórnar­skrárinnar til að ræða þær upp­lýsingar sem nú hafa birst í skýrslunni. Það að skýrslan hafi ekki verið birt var gífurlega umdeilt á sínum tíma og strandaði sú ákvörðun á forseta Alþingis en nú hafa Píratar birt skýrsluna.

„Og varða mál­efni Lindar­hvols og með­ferð stöðug­leika­eigna sem ríkis­sjóður fékk af­hentar í kjöl­far vel heppnaðs upp­gjörs við slita­bú föllnu bankanna,“ segir í yfir­lýsingu þing­flokksins.

Stöðug­leika­fram­lögin hafi verið grund­völlur mesta efna­hags­lega við­snúnings sem vest­rænt ríki hefur notið í seinni tíma sögu og segir þing­flokkurinn að þær upp­lýsingar sem fram komi í greinar­gerðinni bendi til að pottur hafi verið brotinn í með­förum þeirra eigna.

Þá segir í til­kynningunni að fari for­sætis­ráð­herra ekki fram á að þing verði kallað saman tryggi stjórnar­skráin að meiri­hluti þing­manna geti farið fram á slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×