Þyrlupallurinn við Skógarböðin var byggður tveimur vikum áður en böðin sjálf voru opnuð. Stofnandi baðanna segir pallinn notaðan töluvert mikið, þá sérstaklega þegar farnar eru þyrluskíðaferðir í nágrenninu.
„Það kom fyrirspurn frá aðilum sem vildu koma á þyrlu og vildu helst koma utan opnunartíma. Sumir eru svo frægir að enginn má sjá þá. Við „rigguðum“ þessu bara upp á tveimur vikum,“ segir Finnur Aðalbjörnsson, stofnandi Skógarbaðanna.
Þyrlupallurinn nýtist þeim sem vilja ekki vera séðir?
„Já sumir, og enginn veit samt hverjir þeir eru.“
Þyrlupallurinn mun líklegast nýtast enn betur þegar búið verður að byggja Skógarhótel sem á að reisa við hliðina á böðunum á næstu árum.
„Það er kominn vegur að fyrirhuguðu hóteli. Þetta er í skipulagsferli hjá sveitarfélaginu. Ef allt gengur upp getum við byrjað hér í ágúst. Þetta er 120 herbergja hótel með 12 svítum og 200 til 250 manna ráðstefnusal,“ segir Finnur.

Skógarböðin eru með þá sérstöðu að þar er nánast aldrei rok og sjaldgæft að vindur brjóti sér þar leið inn.
„Hér er bara aldrei vont veður, hér inni í skóginum. Hér er gríðarlega gott skjól og næði fyrir gestina að vera. Eins og fólk segir stundum, það er ekki hægt að gera neitt því það er eitthvað skítaveður sem er eiginlega aldrei á Akureyri. En þá getið þið bara komið hingað,“ segir Finnur.