Í tilkynningunni segir að komi gosið upp á þessu svæði og afl gossins verði svipað því sem var í gosinu í fyrra og eiginleikar kvikunnar svipaðir þá sé líklegast að hraunflæðið fylgi rennslileiðum á korti sem má sjá hér að neðan.
„Því sunnar sem gosprungan er því meiri líkur eru á því að hraunið flæði yfir gígana og hraunið frá 2022 og niður í Meradali,“ segir í tilkynningunni.
„Ef hún opnast miðja vegu þarna á milli, er líklegast að hraunið renni til austurs í átt að Núpshlíðarhálsi. Því nær Keili sem gosprungan þá aukast líkurnar á því að hraun flæði til norðurs og niður eftir hlíðum Þráinskjaldar.“
Innflæði kviku tvöfalt hraðar en í fyrra
Í tilkynningu Veðurstofunnar kemur fram að um 7000 skjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst á Reykjanesskaga þann 4.júlí síðastliðin. Hrinan er vegna nýs kvikuinnskots á mili Fagradalsfjalls og Keilis.
„Þrátt fyrir minnkandi skjálftavirkni bendir aflögun sem mæld er með GPS og InSAR eindregið til þess að kvika sé að færast nær yfirborði,“ segir í tilkynningunni.
Gliðnun er eftir um 2.8 kílómetra línu á milli Fagradalsfjalls og Keilis með miðju rétt norðan við litla Hrút sem er í mjög góðu samræmi við það sem skjálftavirkni hefur sýnt, að sögn Veðurstofunnar. Mælingar sýna einnig að innflæði kviku er næstum tvöfalt hraðar en í aðdraganda gossins í ágúst 2022, en heildarrúmmál kviku sem komið hefur upp í efri hluta skorpunnar er svipað eða um 12 milljón rúmmetrar.