Þrír voru um borð og voru allir úrskurðaðir látnir á vettvangi. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi að embættið fari með rannsókn málsins ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa. Rannsókn er sögð á frumstigi og veitir lögregla ekki frekari upplýsingar að svo stöddu.
Boð barst Landhelgisgæslu frá neyðarsendi um borð í fjögurra sæta Cessna 172 flugvél nálægt Breiðdalsheiði klukkan 17:01. Ekki náðist samband við vélina og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út ásamt öllum björgunarsveitum á Austurlandi. Leitað var bæði úr lofti og af landi.
Áhöfn Icelandair sá vélina
Náði leitarsvæðið frá Öxi og í vesturátt og byggði á neyðarboðinu og vitnisburði sjónarvotta sem töldu sig hafa séð til vélarinnar. Lögreglan á Austurlandi tók einnig þátt í aðgerðum og var þeim stýrt af Landhelgisgæslunni úr Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík.
Það var áhöfn flugvélar Icelandair á leið til Egilsstaða sem kom auga á flugvélina, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Áhöfn ferðaþjónustuþyrlu frá Möðrudal sem tók þátt í aðgerðum staðfesti svo fundinn og staðsetningu. Að lokum kom þyrla Landhelgisgæslunnar á staðinn skömmu síðar ásamt björgunarfólki.