Á vef Neytendastofu kemur fram að skoðun hafi verið framkvæmd á ástandi verðmerkinga í smærri verslunarkjörnum á höfuðborgarsvæðinu í lok maí síðastliðinn þar sem farið hafi verið í fjörutíu verslanir og skoðað hvort söluvörur væru verðmerktar. Þá hafi sérstaklega verið skoðað hvort að verðmerkingar hafi verið sýnilegar á útstillingum, til dæmis í sýningarglugga.
„Í fyrri heimsóknum voru gerðar athugasemdir við 12 verslanir sem bæta þurftu verðmerkingar.
Skoðuninni var fylgt eftir hjá þessum 12 fyrirtækjum og höfðu 10 þeirra bætt verðmerkingar þannig að ekki var tilefni til frekari athugasemda. Þetta er óvenju hátt hlutfall úrbóta sem Neytendastofa fagnar og má telja til marks um að aukinn sýnileiki verðmerkingareftirlits leiðir til þess að seljendur gæta betur að merkingum sínum.
Hjá Pennanum í Mjóddinni vantaði enn skýrar verðmerkingar á vörum í sýningarglugga og í verslun Ólavíu og Oliver í Glæsibæ vantaði verðmerkingar á ýmsar söluvörur. Hafa verslanirnar því nú verið sektaðar fyrir ófullnægjandi verðmerkingar,“ segir á vef Neytendastofu.
Ákveðið var að leggja á verslanirnar 50 þúsund króna stjórnvaldssekt sem greiða skal innan þriggja mánaða.