Hákon Arnar hefur verið leikmaður FCK síðan árið 2019 en hann skoraði fjögur mörk í dönsku deildinni á síðasta tímabili og þá skoraði hann einnig í leik gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni.
Hann hefur verið orðaður við brottför frá FCK síðustu vikur og félagið hafnaði 15 milljón evra tilboði Lille á dögunum. Nú hefur FCK hins vegar staðfest að félagið eigi í viðræðum við ónefnt félag vegna félagaskipta Hákons Arnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar í Danmörku en FCK er almennt hlutafélag. Í tilkynningunni kemur fram að viðræður séu hafnar en ekki sé öruggt að samningar náist.
Í lok júní sagði íþróttastjórinn Peter Christiansen að FCK myndi ekki selja Hákon Arnar nema félagið fengi vel borgað fyrir hann.
„Við erum með þá taktík að þeir leikmenn sem fá flestar mínútur á vellinum eigi að kosta mjög marga peninga. Við gefum ungum leikmönnum spiltíma. Þetta er sá aldurshópur sem er eftirsóttastur í knattspyrnunni í Evrópu. Þess vegna er kaupverð einnig í myndinni þegar við seljum okkar ungu leikmenn eftir að þeir hafa slegið í gegn,“ sagði Christiansen við Ekstra Bladet þá.