Elísabet Rut keppti í seinni undanriðlinum og kastaði lengst 63,66 metra sem skilaði henni fjórða sæti. Kasta þurfti 66 metra slétta eða lengra til að tryggja sér beint sæti í úrslitum eða vera á meðal þeirra með tólf lengstu köstin.
Kast Elísabetar Rutar var það áttunda lengsta og keppir hún því í úrslitum á morgun.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir var hins vegar hársbreidd frá því að komast áfram en hún endaði í 14. sæti undankeppninnar. Hún keppti í fyrri undanriðlinum og endaði þar í 6. sæti með kast upp á 62,21 metra. Þar sem átta keppendur í seinni riðlinum köstuðu lengra en Guðrún Karítas er hún úr leik.
Hin þýska Esther Imariagbee náði síðasta sætinu í úrslit en hún kastaði 62,75 metra og því vantaði Guðrúnu Karítas ekki nema 54 sentimetra til að komast áfram.
Íslandsmet Elísabetar er 66,98 metrar en það setti hún á NCAA meistaramótinu í byrjun síðasta mánaðar. Það kast hefði verið annað lengsta kastið í sleggjukastkeppninni í morgun og verður forvitnilegt að sjá hvort Elísabet Rún verði í baráttunni um verðlaun í úrslitum á morgun.