Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar er of langt gengið að segja að fólkið sé týnt. Þau séu ekki slösuð og í símasambandi við lögreglu og björgunarsveitir og ekki fjarri mannabyggðum.
Tímaspursmál sé hvenær þau muni geta ratað sína leið. Eins og fréttastofa hefur greint frá fylltist gossvæðið þegar í stað af fólki þegar það var opnað síðdegis. Þegar fréttamaður var á staðnum um sjöleytið voru rúmlega fimm hundruð bílar á bílastæði.
Áður höfðu björgunarsveitir haft uppi á göngugarpi sem týndist við gossvæðið í dag. Að sögn lögreglu gengu þau björgunarstörf vel og var manninum ekki meint af. Að sögn lögreglu hefur vel gengið á gossvæðinu í dag.