Jóhannes Kristinn Bjarnason, Olav Öby og Sigurður Bjartur Hallsson veiktust allir skyndilega en Sigurður Bjartur hefði líka alltaf misst af leiknum vegna meiðsla.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var spurður út í það eftir leikinn hvort einhver hópsýking væri í gengi í KR-liðnu.
„Já því miður kom upp einhver sýking. Jóhannes missti allt út úr sér í dag og Olav Öby tilkynnti okkur það sama rétt fyrir leik. Sigurður Bjartur hefði ekki spilað vegna meiðsla en það fer líka allt í klósettið hjá honum,“ sagði Rúnar Kristinsson í viðtali við fótbolta.net.
Ástandið í Vesturbænum er farið að minna á það sem var í gangi í kórónuveirufaraldrinum.
„Þetta er ekki gott og við erum að reyna að stía leikmönnum í sundur. Við vorum komnir með sprittbrúsana á loft sem við vorum með í Covidinu og pössum að leikmenn séu ekki að hittast,“ sagði Rúnar.
KR-liðið fær tækifæri til að jafna sig í dag, bæði eftir krefjandi leik og mögulega ef einhver veikindi halda áfram að gera vart við sig.
„Við gefum þeim frí á morgun og reynum að halda þeim í sundur svo við missum ekki fleiri í veikindi,“ sagði Rúnar í fyrrnefndi viðtali.