He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, bauð í dag íslenskum fjölmiðlum í hádegismat þar sem hann fór yfir samskipti Íslands og Kína það sem af er ári. Fjallaði hann meðal annars um verkefni sem kínversk stjórnvöld hafa unnið að á Íslandi og með Íslendingum.
Þar á meðal er stórt jarðhitaverkefni sem hefur skilað því að 500 þúsund kínversk heimili eru hituð upp með jarðvarma. Sendiherrann segist eiga von á enn frekara samstarfi á því sviði.
„Ég tel að í samstarfsverkefninu felist einnig rannsóknir á orkuvinnslugetu á sviði jarðhitamála, ekki bara til hitunar. Arctic Green er í viðræðum við kínverska aðila um málið,“ segir Rulong.
Fjallað hefur verið um áhyggjur af því að rannsóknarmiðstöð Kínverja um norðurljós að Kárhóli í Þingeyjarsýslu sé mögulega nýtt til fjarskiptanjósna.
Sendiherrann segir að það eigi ekki að hlusta á getgátur heldur að skoða í raun og veru hvað er í gangi.
„Þetta er opinn vettvangur til alþjóðlegrar samvinnu um rannsóknir á lofthjúpnum og öll lönd heims munu njóta góðs af því. Fjölmiðlar hafa fjallað um ýmsar kenningar í þessu sambandi. Ég tel að við þurfum að skilja þetta mál frá sjónarhóli þjóðapólitísks ástands í heiminum í dag. Ég vil því ekki tjá mig sérstaklega um verkefnið. Verkefnið kemur bæði Kína og Íslandi ásamt öðrum ríkjum til góða,“ segir Rulong.