„Þeir sögðu okkur að klukkan 11 yrðum við á götunni. Við héldum að þeir væru kannski að grínast,“ segir Blessing í samtali við fréttastofu.
Flóttafólkið hefur fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd á Íslandi og hefur samkvæmt nýjum útlendingalögum verið tilkynnt um lok á þjónustu. Samkvæmt nýju lögunum missir fólk öll sín réttindi 30 dögum eftir að þau fá endanlega synjun. Undanskilin eru börn og fjölskyldur þeirra. Meðan þess er beðið að mál þeirra fari í gegnum ferli hjá Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála má fólkið ekki vinna.
„Við erum þrjár konur og næstum tuttugu menn saman í herbergi. Í dag sögðu þeir okkur að við hefðum tvo tíma til að koma okkur út.“
Hún segist hafa þráspurt lögreglumennina hvert hún og hinir flóttamennirnir eigi nú að leita. Hún segist eiga í engin hús að venda.
„Þau svöruðu því að þeim væri sama og endurtóku sig, að við þyrftum að fara. Ég sagðist hafa flúið mansal og vændi og spurði hvert ég ætti að fara. Þau sögðu að sér væri sama og ég er því á götunni. Þau vita það.“
Hvernig líður þér?
„Mér líður svo illa. Ég er ekki með sjálfri mér. Ég er ringluð og veit ekkert.“
Veistu hvert þú ferð núna?
„Nei ég veit það ekki. Ég hef ekkert að fara og veit ekki hvert ég gæti farið. Ég veit ekki hvað þau vilja að við gerum.“
Fengu tvo tíma
Esther, flóttakona frá Nígeríu sem kom til Íslands frá Ítalíu þar sem hún var þolandi mansals í um fjögur ár, segist ringluð vegna atburðarásarinnar í dag.
„Lögreglan kom og sagði okkur að við yrðum að fara innan tveggja tíma. Við sögðum þeim að við hefðum ekkert að fara, þau sögðu að það kæmi sér ekki við, við þyrftum að fara“
Hafið þið rætt við lögmann ykkar?
„Ég reyndi. Ég reyndi að tala við hann. Ég skil þetta ekki,“ segir Esther grátandi.







