Leitarlið með líkleitarhunda hefur nú farið yfir um þriðjung hamfarasvæðsins. Búið var að bera kennsl á fimm manns sem fórust í gær.
Færanleg líkgeymsla kom á hamfararsvæðið í gær en hún að hjálpa yfirvöldum að bera kennsl á líkamsleifar sem finnast í brunarústunum. Alríkisyfirvöld sendu teymi réttarlækna, meinafræðinga og tæknimanna með röntgentæki og annan búnað til verksins. Búist er við að það gæti tekið sinn tíma.
Gróðureldarnir á Maui eru nú þegar þeir mannskæðustu í Bandaríkjunum í meira en öld og verstu náttúruhamfarirnar í sögu Havaíríkis. Ríkisstjórinn þar hefur varað við því að tala látinna eigi enn eftir að hækka.

Kviknaði í út frá raflínu
Orkufyrirtæki Havaíeyja hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa ekki tekið rafmagn af línum þrátt fyrir viðvaranir um mikið hvassviðri í síðustu viku. Hópmálsókn gegn því er þegar hafin þar sem fyrirtækið er sakað um að bera ábyrgð á dauða fleiri en hundrað manns.
AP-fréttastofan segir að myndband sem starfsmaður ferðamannastaðar tók upp snemma morguns á þriðjudag fyrir viku sýni raflínu sem féll á jörðina þegar staur sem hélt henni uppi gaf sig. Línan féll í þurrt gras og kveikti í því. Myndbandið var tekið örfáum mínútum eftir að yfirvöld segjast hafa fengið fyrstu tilkynningarnar um eldinn.
Síðar um morguninn töldu slökkviliðsmenn sig hafa ráðið niðurlögum eldsins og yfirgáfu staðinn. Íbúar þar segja að eldurinn hafi hins vegar blossað upp aftur um miðjan daginn og breitt hratt úr sér.