Fótbolti

Staða Lukaku hjá Chelsea sé bæði félaginu og leikmanninum að kenna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Romelu Lukaku hefur ekki spilað fyrir Chelsea síðan í maí 2022.
Romelu Lukaku hefur ekki spilað fyrir Chelsea síðan í maí 2022. Robin Jones/Getty Images

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, segir að það sé ekki hægt að kenna félaginu alfarið um hvernig komið sé fyrir belgíska framherjanum Romelu Lukaku. Tvær hliðar séu á málinu.

Lukaku, sem var keyptur til Chelsea á 97,5 milljónir punda sumarið 2021, hefur ekki spilað fyrir félagið síðan í maí á síðasta ári. Hann var á láni hjá Inter á síðasta tímabili, en Chelsea hefur ekki viljað hleypa honum frá félaginu í sumar nema eitthvað félag sé tilbúið að kaupa leikmanninn.

„Það eru tvær hliðar á þessu máli,“ sagði Pochettino um framherjann.

„Þið getið ekki kennt félaginu alfarið um það hvernig staðan er. Þetta kemur frá báðum hliðum. Staðan er eins og hún er af því að það eru tvær hliðar á málinu.“

Lukaku gekk fyrst til liðs við Chelsea árið 2011 frá Anderlecht, þá aðeins 18 ára gamall. Hann lék svo með West Brom, Everton, Manchester United og Inter áður en hann gekk aftur í raðir Chelsea árið 2021 þegar félagið gerði hann að dýrasta leikmanni Englands frá upphafi.

„Staðan er eins og hún er,“ bætti Pochettino við. „Við [Pochettino og starfsteymi hans] vorum látnir vita af stöðunni hjá hverjum leikmanni fyrir sig þegar við tókum við og þegar við tókum við vorum við með fyrirfram ákveðinn hóp í höndunum. Fyrir mér er þetta augljóst og ekkert hefur breyst.“

„Ef það er eitthvað sem þarf að tilkynna þá sér klúbburinn um það,“ sagði Argentínumaðurinn að lokum.

Nú þegar önnur umferð ensku úrvalsdeildarinnar er við það að klárast hefur Lukaku ekki enn fengið treyjunúmer eftir endurkomu sína til Chelsea frá Inter. Eins og staðan er núna horfir hann því fram á að vera úti í kuldanum allt tímabilið nema takist að selja hann áður en félagsskiptaglugginn lokar um mánaðarmótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×