Stjórn ellefu flokka, þar á meðal tveggja flokka sem tengjast hernum og Prayuth Chan-ocha, var samþykkt með 482 atkvæðum af 727 á taílenska þinginu í dag. Srettha verður forsætisráðherra fyrir hönd Pheu Thai-flokksins.
Gagnrýnendur stjórnarsamstarfsins segja það svik við kjósendur þar sem Framsóknarflokkurinn, sem hlaut flest atkvæði í kosningunum, á ekki sæti í henni. Leiðtogar Pheu Thai segja samstarfið nauðsynlegt til þess að leysa úr pattstöðunni sem ríkti. Áhugi Framsóknarflokksins á því að breyta umdeildum lögum sem banna ærumeiðingar í garð konungsfjölskyldunnar hafi gert hann óstjórntækan.
Srettha er 61 árs gamall nýgræðingur í stjórnmálum en vel þekktur athafnamaður. Aðeins níu mánuðir eru frá því að hann gekk til liðs við Pheu Thai sem hefur það á stefnuskránni að draga úr ójöfnuði í landinu. Srettha hætti sem forstjóri fjölskyldufyrirtækis síns fyrr á þessu ári og lét dóttur sinni eftir öll hlutabréf í því, að sögn AP-fréttastofunnar.
Samsteypustjórninni er ætlað að koma hjólum efnahagslífsins í gang, hækka lágmarkslaun og binda enda á herskyldu.
Pheau Thai tengist Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra landsins sem herinn steypti af stóli árið 2006. Thaksin kom aftur til Taílands í morgun eftir margra ára útlegð og hóf afplánun á átta ára fangelsisdómi sem hann hlaut í spillingarmáli.
Vangaveltur eru uppi um að Thaksin hafi valið að snúa aftur nú þegar stjórnmálaflokkur hans er við völd í von um að fá fangelsisdóm sinn mildaðan. Thaksin vísar því á bug.