Flugsveit bandaríska flughersins kom til landsins sunnudaginn 13. ágúst og hefur síðan verið við æfingar með bandalagsríkjum í Norður-Evrópu. Um er að ræða þrjár B-2 Spirit flugvélar með allt að 200 manna liðsafla sem mun hafa aðsetur á öryggissvæðinu í Keflavík næstu vikur á meðan æfingar standa yfir.
Uppfært 18:30 - Sprengjuvélarnar voru undir stjórn flugturns Isavia þegar þeim var flogið yfir höfuðborgarsvæðið í dag og voru þær í fjórtán til sautján þúsund feta hæð. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er almennt reynt að forðast að fljúga flugvélum sem þessum yfir höfuðborgarsvæðið en það ku hafa verið ómögulegt núna vegna anna við flugleiðsögu.
B-2 er talin eitthvert skæðasta vopn sem til er en óvenjulegt útlit þotunnar gerir það að verkum að hún sést illa á ratsjám. Þá getur hún borið allt að sextán kjarnorkusprengjur.
Þessi fljúgandi vængur er jafnframt dýrasta flugvél sögunnar. Þróun og smíði hennar kostaði 260 milljarða króna á hvert eintak en aðeins tuttugu eru til í heiminum. Svo dýr er hún í rekstri að hver flugtími reiknast á 17 milljónir króna.
Illugi Jökulsson rithöfundur er meðal Reykvíkinga sem heyrðu vel í drununum í dag án þess þó að sjá þoturnar. Hann greindi frá því á Facebook og fjölmargir til viðbótar deildu sömu reynslu.
Albert Jónsson, sérfræðingur í varnarmálum, ræddi komu sprengjuflugvélanna í kvöldfréttum Stöðvar 2 á dögunum.