Noah Lyles er óumdeild stjarna heimsmeistaramótsins í frjálsum íþróttum í Bandaríkjunum. Hann fer heim með þrenn gullverðlaun í 100 metra hlaupi, 200 metra hlaupi og 4x100 metra boðhlaupi.
Á blaðamannafundi í gær hélt Lyles mikla eldræðu um það hvernig rætt er um þau lið sem vinna titla í heimalandi hans Bandaríkjunum. Í NBA-deildinni hefur til dæmis tíðkast að tala um sigurlið deildarinnar sem „World Champions“ eða heimsmeistara.
Þetta tal hefur oft orðið tilefni til umræðna á meðal íþróttaáhugamanna þar sem keppnin er aðeins innan Bandaríkjanna þó vissulega spili þar flestir af bestu leikmönnum heims.
Noah Lyles getur vissulega kallað sig heimsmeistara og tal um heimsmeistara í Bandaríkjunum fer augljóslega aðeins í taugarnar á honum.
Noah Lyles has had just about enough of US sports teams calling themselves world champions. pic.twitter.com/CTgNawYRLi
— Cathal Dennehy (@Cathal_Dennehy) August 25, 2023
„Ég hef horft á NBA-deildina og þeir eru með „Heimsmeistarar“ á höfðinu á sér. Heimsmeistarar hvar? Í Bandaríkjunum?,“ spurði Lyles í hæðnislegum tón.
„Ekki misskilja mig, ég elska Bandaríkin oftast nær. En það er ekki heimurinn. Við erum heimurinn, við erum með öll löndin hér að berjast fyrir fánann sem þau bera. Það eru engir fánar í NBA-deildinni,“ bætti Lyles við.
Lyles fékk lófaklapp í lok fundarins og greinilegt að gestir þar voru sammála þrefalda heimsmeistaranum.