Skoðun

Vand­ræða­legt fyrir Ís­land

Helgi Ómarsson skrifar

Mér finnst það að við stundum hvalveiðar fyrst og fremst vandræðalegt fyrir Ísland.

Að hugsa til þess að við erum þessi litla þjóð enn að stunda hvalveiðar með tveim öðrum þjóðum sem hafa gert það í þúsundir ára eins og Noregur og Japan.

Í Japan ríkir rótgróinn kúltúr í kringum hvalveiðar sem erfiðara er að breyta, en við höfum ekki þá afsökun.

Hvalir eru vinir okkar.

Við seljum í hvalaskoðanir og þeir eru eitt aðal aðdráttaraflið okkar.

Tilhugsunin um hvalveiðar eru fyrir mér, og þá sérstaklega eftir að ég horfði á Avatar 2, vægast sagt, viðbjóður.

Mér finnst leiðinlegt að nota svona stór orð en svona líður mér.

Þegar það var staðfest fyrir okkur í vor að þessi dýr eru kvalin hryllilega lengi þá hugsaði ég; „fyrir hvað?”

Bara til að nokkrir litlir karlar geti haldið vinnu?

Það er nóg af vinnu í boði í dag og það þarf ekki að kvelja þessa stóru dásamlegu risa sem eru hérna til þess að búa til súrefni og auðga lífið í sjónum fyrir okkur á þessarri plánetu.

Það er einstakt fyrir Ísland að það séu risar að synda hérna í kring og við eigum að vernda þá og vera þakklát fyrir tilvist þeirra. Þeir eru mikilvægir fyrir okkur og fyrir vistkerfi sjávar.

Það voru dásamlegar fréttir í júní þegar hvalveiðar voru settar á pásu og núna þurfum við að hjálpast að og sjá til þess að hvalveiðibann verði til frambúðar.

Höfundur er ljósmyndari og athafnamaður.




Skoðun

Sjá meira


×