Sædýrasafnið í Hafnarfirði, sem starfrækt var á árunum 1969 til 1987, er mörgum í fersku minni enda voru þar ekki einungis sjávardýr heldur einnig einnig ljón, apar, ísbirnir, kengúrur og önnur framandi dýr.
Safnið var staðsett í Hafnarfirði sunnan við Hvaleyrarholt gegnt þeim stað þar sem Krýsuvíkuvegur mætir Reykjanesbraut.
Hugmyndin að safninu varð til eftir að skátar í Hafnarfirði settu upp sýningu á fiskum árið 1964 en eftir það skapaðist mikill áhugi á meðal manna á því að koma upp safni af þessu tagi. Það var Jón Kr. Gunnarsson skipstjóri og ritstjóri sem var aðalhvatamaður að stofnun safnsins og gegndi hann stöðu forstöðumanns frá upphafi til enda. Þess ber að geta að Sædýrasafnið í Hafnarfirði var annað sjávardýrasafnið sem sett var upp á Íslandi en það fyrsta var sett upp í Vestmanneyjum.

„Sædýrasafnið, Sædýrasafnið. Apar, ljón og ísbirnir, Sædýrasafnið.“ Þeir sem voru uppi á áttunda áratug seinustu aldar muna ef til vill eftir að hafa heyrt þessa auglýsingu í útvarpinu.
Árið 1971 voru til sýnis um stutt skeið tvö tígrisdýr sem fengin voru að láni úr dýragarði í Svíþjóð. Brátt bættust við selir, háhyrningar, ísbjörn, ljón og apar, auk íslenskra húsdýra. Þá muna margir eftir kengúrunum sem voru til sýnis á safninu um tíma.

En þrátt fyrir miklar vinsældir og stöðuga aðsókn reyndist rekstur Sædýrasafnsins engu að síður þungur. Þar spilaði meðal annars inn í að ráðist var í dýrar endurbætur á safninu sem síðan borguðu sig ekki. Safninu var fyrst lokað tímabundið árið 1980 og árið 1987 var sagan öll. Íslendingar eignuðust svo nýjan dýragarð þremur árum síðar, þegar Húsdýragarðurinn í Laugardal var opnaður árið 1990.
Meðfylgjandi myndir eru í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur.










Um Ljósmyndasafnið
Ljósmyndasafn Reykjavíkur er miðstöð ljósmynda þar sem fortíðin og nútíminn mætast. Markmið safnsins er að varðveita, safna og sýna bæði sögulega og samtímaljósmyndun í listrænu, félags- og menningarlegu samhengi. Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur eru nú varðveittar um 6,5 milljónir ljósmynda af ýmsum stærðum og gerðum. Elstu myndirnar eru frá því um 1860 og þær yngstu frá 2020.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur setur upp á annan tug sýninga ár hvert. Markmiðið er að kynna íslenska ljósmyndara og koma á framfæri, sýna verk úr safneign sem og að sýna verk erlendra ljósmyndara.