Þýska úrvalsdeildin í handbolta er farin af stað og mættust Magdeburg og Flensburg í annarri umferð deildarinnar í dag.
Jafnræði ríkti á með liðunum, en heimamenn í Magdeburg virtust þó skrefi framar stærstan hluta leiksins. Liðið náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik og sá var einmitt munurinn þegar flautað var til hálfleiks, staðan 16-13.
Magdeburg byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og náði mest sjö marka forskoti í stöðunni 22-15. Gestirnir í Flensburg minnkuðu muninn hægt og rólega eftir það, en náðu aldrei að ógna forskoti Magdeburg að viti og niðurstaðan varð tveggja marka sigur heimamanna, 31-29.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk fyrir Magdeburg í dag, öll úr vítum, og Janus Daði Smárason skoraði tvö og lagði upp önnur tvö. Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað fyrir Flensburg.
Magdeburg er því enn með fullt hús stig eftir tvo leiki, en þetta var fyrsta tap Flensburg á tímabilinu.