Meðalhitinn í ágúst var 1,5 gráðu yfir viðmiðunartímabili fyrir iðnbyltingu samkvæmt Alþjóðaveðurfræðistofunni og Kópernikusarloftslagsþjónustu Evrópusambandsins. Markmið Parísaramkomulagsins er að takmarka hlýnun við 1,5 gráðu en mælt yfir áratugi, ekki einstaka mánuði.
Ágúst var þriðji mánuðurinn í röð sem setur mánaðarhitamet. Hitinn í heimshöfunum var jafnframt sá mesti sem mæst hefur, nærri því 21 gráða. Hitamet hafa verið slegin í hafinu þrjá mánuði í röð, að sögn AP-fréttastofunnar.
„Hundadagar sumarsins gelta ekki bara heldur bíta. Loftslagshrun er hafið,“ sagði Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðirnar, í yfirlýsingu um nýju mælingarnar.
Tímabilið frá miðjum júlí til seinni hluta ágústs eru nefndir hundadagar. Heitið kemur frá Forn-Grikkjum sem tengdu sumarhita við hundastjörnuna Síríus sem byrjar að sjást á morgunhimni um þetta leyti samkvæmt íslenskri alfræðiorðabók.

Í stórum hluta Mið-Evrópu og Skandinavíu var ágúst óvenjuvætusamur sem leiddi til flóða á sama tíma og miklir þurrkar sköpuðu aðstæður fyrir gróðurelda í Frakklandi, Grikklandi, Ítalíu og Portúgal, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Nú í fyrstu viku september hefur aftakaúrkomu og flóð gert á Spáni og Grikklandi sem skrælnuðu í öflugum hitabylgjum fyrir skemmstu.
Enn sem komið er stefnir árið í ár að verða það næsthlýjasta frá upphafi mælinga. Aðeins árið 2016, þegar áhrifa sterks El niño gætti, var hlýrra.
Fornloftslagsfræðingar telja að ekki hafi verið hlýrra á jörðinni í að minnsta kosti 120.000 ár. Orsökin fyrir hlýnun jarðar nú er gegndarlaus losun manna á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti.