Sjósetning fór fram við formlega athöfn á miðvikudaginn en ríkissjónvarp Norður-Kóreu birti myndir af athöfninni í morgun. Kafbáturinn ber nafn Kim Kun Ok, sem er sögufrægur kóreskur sjóliði.
Yonhap fréttaveitan segir Kim hafa haldið ræðu við sjósetninguna þar sem hann sagði kafbátinn tákna mátt Norður-Kóreu, sem skyti skelk í bringu óvina ríkisins. Kim hefur kallað nútíma- og kjarnorkuvæðingu flota Norður-Kóreu gífurlega mikilvægt skref.
Líklega er þetta sami kafbáturinn og Kim var myndaður við að skoða árið 2019, þegar verið var að smíða hann. Í ræðunni hét Kim því að fleiri kafbátar yrðu smíðaðir í framtíðinni.

Kafbáturinn virðist geta verið búinn tíu eldflaugum, miðað við myndir, en yfirvöld í Norður-Kóreu hafa ekkert sagt um kafbátinn hingað til. Samkvæmt Yonhap er einnig talið að hægt væri að nota kafbátinn til að skjóta kjarnorkutundurskeyti sem kallast Haeil.
Á myndefni sem birt var í Norður-Kóreu má sjá Kim umkringdan flotaforingjum og sjóliðum þegar kafbáturinn var sjósettur.
Herforingjaráð Suður-Kóreu segir að kafbáturinn virðist vera breyttur Sovéskur kafbátur af gerð sem kallaðist Romeo Class á Vesturlöndum og var fyrsti slíki kafbáturinn smíðaður árið 1957. Svo virðist sem honum hafi verið breytt en yfirvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum munu hafa fylgst náið með þeim framkvæmdum.
Talsmaður herforingjaráðsins sagði blaðamönnum að talið væri að kafbáturinn væri ekki í þannig standi að hægt væri að nota hann með eðlilegum hætti.
