Það var hátíðarstemming á Sólheimum í gær þrátt fyrir töluverða úrkomu á staðnum þegar rampurinn var vígður. Eftir stutt ávarp frá Sigurjóni Erni, stjórnarformanns Sólheima var komið að Eddu Guðmundsdóttur íbúa á staðnum að munda skærin og klippa á vígsluborðann. Haraldur Þorleifsson, forsvarsmaður verkefnisins gat ekki verið á staðnum en hann sendi pabba sinn, sem staðgengil.
„Ég er gríðarlega ánægður með þetta. Það er gott að koma hérna að Sólheimum og við höfum fengið mjög góðar viðtökur. Það er búið að auka markmiðið úr þúsund römpum upp í fimmtán hundruð og við ætlum að klára það ári fyrr í staðinn fyrir að klára 2026 ætlum við að klára 2025,” segir Þorleifur Gunnlaugsson staðgengill sonar síns á Sólheimum.

Íbúar á Sólheimum eru að sjálfsögðu himinlifandi yfir verkefninu og að fá alla þessa rampa á staðinn til að auðvelda allt aðgengi.
„Og þetta verkefni, Römpum Ísland”, maður á ekki til orð. 31 rampur núna á tveimur árum hér á Sólheimum. Sextán í sumar og klárað á næsta ári, þannig að við erum mjög ánægð, mjög ánægð, segir Valgeir Fridolf Backman, umsjónarmaður félagsmála á Sólheimum.

Og það er náttúrulega mikil nauðsyn á þessu hér á Sólheimum?
„Já, það er það, við erum farin að eldast og við erum farin að nota grindur, göngugrindur og hérna eru nokkrir hjólastólar, já, mjög þarft og þetta snýst alltaf um það að vera sjálfbær, geta komist á milli staða án þess að einhver sé að ýta manni eða hjálpa manni. Maður á bara að geta gert þetta sjálfur,” bætir Valgeir við.
Og í tilefni vígslunnar og allra rampanna sem eru komnir eða eru að koma á Sólheima söng Sólheimakórinn nokkur lög fyrir gesti athafnarinnar og uppskar mikið lófaklapp í staðinn.
