Það eru margir óvanir veiðimenn sem spyrja að því hvers vegna hængarnir verði svona tökuglaðir á haustinn og líklegasta skýringin er bara sú að þeir eru að vernda sín hrygningarsvæði og hrygnur. Haustið er tíminn sem þessir stóru fara á stjá og núna er það að verða daglegt brauð að sjá myndir af stórum hausthængum sem hafa stokkið á flugur veiðimanna. Síðan er það spurningin hvernig fæ ég þessa hænga til að taka? Það er í raun engin leið að svara þessu beint önnur en sú að vita hvar þeir liggja.

Ef þú veist um stað þar sem ítrekað hefur verið sett í stórann hæng eða þá að hann hefur verið að sýna sig þá segja margir af þeim alvönu veiðimönnum sem ná í svona hænga á hverju hausti að hvíla þann stað ef kostur er fram til loka dags. Þegar það rökkvar fara þeir frekar á stjá og eru tökuglaðari en á björtum deginum. Eins að hugsa aðeins út fyrir kassann í fluguvali.

Stundum er talað um að nota haustflugur sem eru þá gjarnan með appelsínugulu og/eða grænum lit, minnka flugurnar, stækka flugurnar og breyta því hvernig flugan berst fyrir laxinn. Í raun eru útgáfurnar af aðferðunum jafn margar og veiðimennirnir sem kunna að ná í þessa drjóla en eitt er víst, heppni hefur nokkuð með þetta að gera. Gangi ykkur sem allra best í haustveiðinni.