Frá þessu greinir Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, í samtali við Vísi .„Við girtum þetta bara almennilega, og þetta lítur ágætlega út. Þannig nú passar fólk sig að fara ekki alveg að brúninni,“ segir hún.
„Eftir að banaslysið varð hefur fólk verið að koma og kveikja á kertum. Þessi staður er ekkert endilega hættulegri en hver annar. Og vegna þess að það er svo mikið af fólki þarna og það er bekkur þarna þá erum við búin að girða svæðið af,“ segir hún.
Um er að ræða tímabundna lausn að sögn Söru og í framhaldinu verði skoðað af sveitarfélaginu hvort eigi að setja upp varanlega girðingu.
Violeta Mitul lést fyrir rúmri viku síðan, en hún var leikamaður knattspyrnuliðsins Einherja. Sara segir að gríðarlegur samhugur hafi verið í samfélaginu fyrir austan vegna andlátsins.
„Það er alveg hræðilegt að þetta hafi gerst. Við vorum með svo fallega bænastund í síðustu viku og það mættu held ég bara allir bæjarbúar,“ segir Sara sem vonast til að fjölskylda Violetu, sem er á landinu hafi fundið fyrir stuðningi.
Jafnframt segir Sara að andlátið sé mikið áfall fyrir liðsfélaga hennar hjá Einherja, sem og alla aðra bæjarbúa.
Viku eftir banaslysið í síðustu viku féll önnur kona niður af klettunum, en áverkar hennar töldust minniháttar.