Hrönn Ólína Jörundsdóttir forstjóri Matvælastofnunar (MAST) segir eitthvað hafa brugðist við veiðar fyrsta hvalsins á hvalveiðitímabilinu, þann 7. september síðastliðinn.
MAST stöðvaði í dag tímabundið veiðar á hvalveiðiskipinu Hvalur 8 vegna alvarlegra brota á velferð dýra. Samkvæmt MAST hæfðu veiðimenn langreyð „utan tilgreinds marksvæðis“ hinn sjöunda september síðastliðinn með þeim afleiðingum að dýrið drapst ekki strax.
„Það virðist eitthvað hafa brugðist við veiðarnar. Þannig þeir skjóta fyrsta skutli og svo gerist eitthvað þannig að dýrið drepst ekki strax. Þeir hitta það ekki rétt. Svo er dýrið ekki skotið aftur fyrr en 29 mínútum seinna,“ segir Hrönn en hún var gestur í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld.
Hún segir stofnunina helst hafa áhyggjur af þessari löngu bið sem líður á milli skota og að þau telji hana vera alvarlegt frávik frá þeim reglum sem matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, setti í nýrri reglugerð um veiðarnar í síðustu viku. Vegna þess voru veiðar Hvals 8 stöðvaðar.
Hrönn segir að Hval hf. segjast hafa innleitt nýjar veiðiaðferðir og að stofnunin muni yfirfara þær og meta að loknu veiðitímabili.
„Hvort eitthvað hafi breyst og hvort geta þeirra til að aflífa dýrin sé betri.“
Hún segir þetta eina málið sem sé opið núna og til skoðunar hjá stofnunni, en að alltaf sé möguleiki á að fleiri opnist.
Framkvæma greiningu og innleiða úrbætur
Hún segir að áður en skipið fær að halda aftur til veiða verði að framkvæma rótargreiningu á því hvað gerðist við aflífun hvalsins þann 7. September og innleiða úrbætur sem eigi að tryggja að ekki líði svo langt á milli þegar skjóta þarf oftar en einu sinni.
Hún segir að bæði MAST og Fiskistofa taki úrbæturnar út og ákveði svo í kjölfarið hvort að Hvalur 8 geti aftur haldið til veiða.
Búið er að veiða 14 langreyðar á veiðitímabilinu. Þingmenn fjögurra flokka lögðu fram frumvarp á þingi í dag um bann við hvalveiðum.