AP fjallar um málið. Hardeep Singh Nijjar var kanadískur ríkisborgari og leiðtogi innan Sikh-trúarhópsins. Hann var myrtur af tveimur grímuklæddum byssumönnum í kanadísku borginni Surrey í júní síðastliðnum.
Hann hafði barist fyrir sjálfstæði Khalistan, sérstaks ríkis Sikh-trúaðra.
Trudeau segir leyniþjónustu Kanada hafa rannsakað tengsl Indverskra stjórnvalda og morðisns á Nijjar.
Hann segist hafa minnst á drápið við forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, á G-20 fundi í síðustu viku. Hann hafi sagt Modi að öll möguleg tengsl málsins við indversk stjórnvöld væru óásættanleg. Þá hafi hann beðið um aðstoð við rannsókn málsins.
Í kjölfarið hefur utanríkisráðherra Kanada, Mélanie Joly greint frá því að yfirmaður Indversku leyniþjónustunnar í Kanada hafi verið rekinn úr landi.
„Ef þetta reynist satt þá er um að ræða stórt brot á fullveldi okkar, og á meginreglu þess hvernig þjóðir umgangast aðrar þjóðir,“ er haft eftir Joly.