Í kjölfar þeirra 159 landsleikja sem fram fóru á dögunum kom nýr styrkleikalisti FIFA út í dag. Argentínumenn styrktu stöðu sína í efsta sæti listans eftir sigra gegn Ekvador og Bólivíu. Frakkarnir í öðru sæti missa nokkur stig eftir tap gegn Þýskalandi.
Argentína hefur verið efst á styrkleikalistanum síðan í apríl á þessu ári. Listinn er þó umdeildur og þykir af mörgum ekki gefa rétta mynd af raunverulegum styrk landsliða. Það vakti einmitt mikla athygli að Argentína sat ekki í toppsætinu eftir að hafa orðið heimsmeistarar í desember 2022.
Eina breytingin á efstu 10 sætunum var sú að Portúgal klifraði upp í 8. sætið fyrir Ítalíu sem féllu niður í 9. sætið.
Albanía hlaut flestu stigin í þessari umferð landsleikja og fór upp um þrjú sæti eftir óvæntan 2-0 sigur gegn Póllandi. N-Írland misstu flest stig en liðið tapaði tveimur útileikjum gegn Slóveníu og Kazakhstan.
Fall Íslands á styrkleikalistanum síðustu ár kemur fáum á óvart. Hæst náði Ísland 18. sætinu rétt fyrir HM 2018, liðið er nú í 67. sæti listans. Hér má sjá listann í heild sinni.
Kvennalandslið Íslands stendur körlunum þó framar en þær sitja sem stendur í 14. sæti. Þær hefja leik í Þjóðadeildinni á morgun, föstudag, þegar liðið mætir Wales á Laugardalsvelli. Ísland mætir svo Þýskalandi ytra á þriðjudag. Nýr styrkleikalisti verður gefinn út í kjölfar þeirra leikja.