Innlent

Mikil­vægt að fólk geti stigið fram og greint frá hatur­s­orð­ræðu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðmundur Ingi segir brýnt að mæta vanda fólks sem á nú í engin hús að venda eftir að þjónusta við það var felld niður.
Guðmundur Ingi segir brýnt að mæta vanda fólks sem á nú í engin hús að venda eftir að þjónusta við það var felld niður. Vísir/Vilhelm

Félags- og vinnumarkaðsráðherra segir afar áríðandi að rými sé í samfélaginu fyrir fólk til að greina frá hatursorðræðu og fordómum. Mikilvægt sé að skrá öll tilfelli og að brugðist sé við þeim. 

Sjötta áfangaskýrsla Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi kom út í vikunni. Nefndin fagnar því í skýrslunni að ýmsar jákvæðar framfarir hafi átt sér stað frá síðustu úttekt árið 2017 en segir ákveðin atriði þó enn valda þeim áhyggjum.

Þær áhyggjur sem nefndin hefur varða sem dæmi þekkingu almennings á lögum um jafna meðferð og þau úrræði sem lögin tryggja þeim, eins og kærunefnd jafnréttismála. Þá segir að vaxandi einelti gegn hinsegin nemendum valdi áhyggjum og að ekkert kerfi sé til sem fylgist með atvikum er varða kynþáttafordómum í skólum. Þá segir að skortur sé á kerfisbundinni og samræmdri nálgun um það hvernig eigi að taka á kynþáttafordómum í samfélaginu og það gagnrýnt að engin kerfisbundin gagnasöfnun fari fram á fjölda tilkynninga um kynþáttafordóma og hatursorðræðu.

„Úttekt nefndarinnar nær til 30. mars í ár og við erum að sjá jákvæðar niðurstöður fyrir Ísland,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, en ráðuneyti hans tók á móti nefndinni í október í fyrra.

Margt gott og annað ekki

Hann segir margt jákvætt er varðar jafnréttismál og réttindi hinsegin fólks.

„Þarna eru nefnd lög um jafnan rétt og stöðu kynjanna og jafna meðferð utan og innan vinnumarkaðar. Það er fjallað um lög um kynrænt sjálfræði og aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks. Þetta eru allt jákvæð dæmi og ég held við getum verið ánægð með það sem hefur gerst á síðustu árum, en þurfum á sama tíma að horfa til þess sem nefndir nefnir sem við getum gert betur.“

Guðmundur Ingi segir ábendingarnar eiga við fjölmörg ráðuneyti og að þau séu til skoðunar þar.

Hann segist taka það til sín að nefndin nefndi að fólk sé ekki nægilega meðvitað um rétt sinn. En segir það þó kannski skárra en að fá ábendingu um að rétturinn sé ekki til staðar. Það þurfi því frekar að fara í átak með félagasamtökum, stofnunum og ýmsum aðilum til að koma þeim upplýsingum áleiðis.

„Þar er verk að vinna svo lögin komist frekar til framkvæmda. Ég held að maður verði að gleðjast yfir því að þetta sé ein af tillögunum. Að við þurfum að vekja athygli á jákvæðri lagaþróun en ekki að við þurfum að breyta lögunum svo borgararnir hafi þann rétt sem um ræðir.“

Gagnagrunnur lykilatriði

Hann segir þær ábendingar er varða hatursorðræðu gegn hinsegin fólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd að hans mati þær sem þarf að taka strax á. Sem dæmi sé einboðið að ráðast í það að koma upp gagnagrunni upp sem skrái slík tilvik.

„Með því að fá frekari gögn og upplýsingar um umfangið og alvarleika brotanna er auðveldara að koma fram með aðgerðir til að vinna gegn þeim.“

Guðmundur segir mikilvægt að samfélagið sé þannig að fólk geti raunverulega stigið fram og greint frá hatursorðræðu eða fordómum sem þau verða fyrir.

„Við erum að sjá allt of margt fólk, sérstaklega hópa hinsegin fólks og innflytjenda, sem líða fyrir hatursoðræðu. Það það veldur þeim mikilli vanlíðan og er alveg ólíðandi. Það hefur áhrif á lífsgæði þeirra, auk þess sem það er á skjön við það samfélag sem við viljum byggja hér upp.“

Hægt er að kynna sér niðurstöður skýrslunnar hér á heimasíðu ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×