Septembermánuður ár hvert er alþjóðlegur vitundarvakningarmánuður um PCOS eða fjölblöðrueggjastokkaheilkenni. „Hvað getum við gert“ er yfirskrift ráðstefnu PCOS samtakanna sem fer fram í dag. Guðrún Rútsdóttir, formaður PCOS samtakanna, segir heilkennið geta haft margvísleg áhrif á konur.
„Þetta er sem sagt innkirtlaröskun sem veldur óreglu á hormónakerfi líkamans og þetta er ein algengasta orsök ófrjósemi hjá konum. Þetta er heilkenni og hefur margvíslegar afleiðingar og lýsir sér á mismunandi hátt hjá mismunandi konum,“ segir Guðrún.
Ekki eingöngu ófrjósemi
Guðrún þekkir PCOS vel sjálf en hún greindist á barneignaraldri en það reyndist henni erfitt að verða ófrísk „Sem svo tókst og þá í rauninni hélt ég að mín PCOS saga væri búin því þetta er það sem er svo oft einblínt á, ófrjósemin,“ segir Guðrún. Það sé þó margt annað sem heilkennið getur haft áhrif á.
„Ég kemst ekki að því fyrr en ég er 39 ára gömul að líkurnar á að fá sykursýki tvö eru yfirgnæfandi og hjarta og æðasjúkdómar, krabbamein í legslími,“ segir hún jafnframt og bætir við að einnig séu mun meiri líkur á að konur með PCOS glími við átröskun, þunglyndi og kvíða. „Sem hefði verið ofboðslega gott að vera meðvitaður um frá upphafi.“
Skilningsleysi og fitusmánun
Að sögn Guðrúnar er heilkennið ólæknandi en ýmsar leiðir séu til að halda einkennum niðri. Konur hafi mætt skilningsleysi og fitusmánun í heilbrigðiskerfinu. „Það þarf bara meiri þekkingu og vitundarvakningu í heilbrigðiskerfinu og samfélaginu. Það er bara þannig og þetta vandamál er ekki einangrað við Ísland,“ segir Guðrún og bendir á hin Norðurlöndin.
„Við erum öll á sama stað – Ísland er ekkert öðruvísi en hin Norðurlöndin og ég held það sé að verða þessi vitundarvakning núna,“ segir Guðrún að lokum.