Fram kemur í umfjöllun fréttastofu Sky að lögreglan hafi greint frá því að allar ásakanirnar, sem eru til rannsóknar, séu um brot sem áttu sér ekki stað nýlega. Í kjölfar umfjöllunar The Sunday Times og Channel 4 um meint brot Brands hafi lögreglunni borist fjöldi ásakana um brot sem eigi að hafa átt sér stað í Lundúnum.
„Við höfum einnig fengið ásakanir á borð okkar um kynferðisbrot sem framin voru utan landsteinanna og munum taka þær til rannsóknar,“ er haft eftir Scotland Yard í umfjöllun Sky.
Lögreglan greindi frá því síðastliðinn mánudag að henni hafi borist ásökun gegn Brand um kynferðisbrot, sem á að hafa átt sér stað árið 2003. Í kjölfarið hvatti lögreglan fleiri mögulega þolendur grínistans til að stíga fram.
Brand birti á föstudagskvöld þriggja mínútna langt myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsti enn og aftur yfir sakleysi sínu og sagði síðastliðna viku verið „stórfurðulega og erfiða“.
Hann talaði undir rós en bað aðdáendur sína um að „taka upplýsingum með fyrirvara“. Þá kvartaði hann einnig yfir fjölmiðlum, sagði þá spillta og minntist á svokallað „djúpríki“, sem er vinsælt hugtak meðal samsæriskenningasmiða.
Óásættanleg vinnustaðahegðun
Fjórar konur stigu fram 16. september síðastliðinn og sökuðu Brand um að hafa brotið á sér kynferðislega. Mikið hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum á Bretlandi og hafa breska ríkissjónvarpið, Chanel 4 og framleiðslufyrirtækið Banijay UK hafið rannsókn á Brand. Brand starfaði hjá öllum þremur vinnustöðum og hafa komið fram lýsingar af óásættanlegri vinnustaðahegðun hans.
Til að mynda hafa The Times eftir heimildamanni að kvartið hafi verið til BBC vegna „ógnvekjandi yfirgangssemi og virðingaleysis“ Brand í garð annarra.
Ásakanirnar ná yfir bæði nauðgun og kynferðisofbeldi sem á að hafa átt sér stað á árunum 2006 til 2013. Áður en ásakanirnar voru gerðar opinberar í fjölmiðlum birti Brand myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann þvertók fyrir að hafa brotið af sér. Myndbandið vakti nokkra furðu þar sem enginn vissi hverju Brand væri að neita fyrr en nokkru síðar, þegar umfjöllun fjölmiðla um meint brot hans birtist.