Enski boltinn

Reece James kærður fyrir ummæli í garð dómara

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Reece James er fæddur og uppalinn hjá Chelsea
Reece James er fæddur og uppalinn hjá Chelsea Visionhaus/Getty Images

Reece James hefur verið kærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir meint brot eftir leik Chelsea gegn Aston Villa um helgina. Brotið á að hafa átt sér stað í göngunum sem liggja að búningsherbergjum. 

Enski bakvörðurinn spilaði sjálfur ekki í þessum leik vegna meiðsla en var staddur á vellinum og í samskiptum við liðið. 

Í yfirlýsingu FA segir: „Því er haldið fram að leikmaðurinn hafi notað óviðeigandi og/eða móðgandi og/eða særandi orð í garð dómara að leik loknum.“

Reece James hefur tvo daga, eða þangað til 29. september til að svara þessum ásökunum. 

Leikmaðurinn er uppalinn hjá Chelsea og var gerður að fyrirliða liðsins fyrir tímabil en hefur lítið spilað eftir að hafa meiðst á æfingu í síðasta mánuði. Chelsea hefur verið í alls kyns vandræðum og spilað langt undir getu það sem af er tímabils, með aðeins fimm stig eftir sex leiki. 

Þeir töpuðu fyrir Aston Villa um helgina 0-1 og lentu manni undir á 58. mínútu þegar afleysing Reece James, Malo Gusto, fékk rautt spjald. Upphaflega var litur spjaldsins gulur en eftir að athuga málið betur í VAR skjánum gaf dómarinn rautt. 

Ekki er vitað hvort Reece James hafi verið að tjá sig um það atvik nákvæmlega en ljóst er að hann var ekki sáttur með dómgæsluna í þessum leik. 


Tengdar fréttir

Reece James tekur við fyrirliðabandinu hjá Chelsea

Reece James mun taka við fyrirliðabandinu hjá Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en staða fyrirliða hefur verið laus síðan í vor þegar César Azpilicueta yfirgaf liðið og gekk í raðir Atlético Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×