Fótbolti

Svona var blaða­manna­fundur Åge: „Leikur sem ég hef eytt úr mínu minni“

Aron Guðmundsson skrifar
Age Hareide, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta
Age Hareide, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta

Åge Hareide, lands­liðs­þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta segist hafa eytt minningunni um leik liðsins gegn Lúxem­borg, í síðasta verk­efni liðsins, úr huga sínum. Åge sat fyrir svörum á blaða­manna­fundi í morgun og þar var ljóst að hann bindur miklar vonir við endur­komu Gylfa Þór Sigurðs­sonar og Arons Einars Gunnars­sonar í liðið.

Áður en Åge tók við spurningum frá blaða­mönnum fór hann að­eins yfir sviðið. Síðasta verk­efni og hvernig komandi tímar horfa við honum.

Hann snerti meðal annars á afar svekkjandi 3-1 tapi Ís­lands gegn Lúxem­borg á úti­velli í síðasta verk­efni.

„Við erum sér­stak­lega von­sviknir með frammi­stöðuna gegn Lúxem­borg í síðasta verk­efni. Þetta er leikur sem ég hef eytt úr mínu minni. Það fór allt úr­skeiðis þar.“

Klippa: Blaðamannafundur Åge Hareide

Þrátt fyrir að leik­menn á borð við Gylfa Þór Sigurðs­son og Aron Einar Gunnars­son séu að snúa aftur í lands­liðið eru þó nokkrir fasta­menn liðsins fjar­verandi.

„Jóhann Berg er meiddur á kálfa. Hörður Björg­vin meiddist al­var­lega á hné og svo er Val­geir Lund­dal með brotið bein í fætinum sem heldur honum frá þessu verk­efni.

Við höfum valið 23 leik­menn, tveir þeirra eru leik­menn sem ég vil mjög gjarnan hafa í hópnum þrátt fyrir að þeir hafi ekki spilað mikið.“

Þeir leik­menn sem um ræðir þar eru Aron Einar Gunnars­son og Gylfi Þór Sigurðs­son.

„Þeir vilja virki­lega koma og leggja vinnuna á sig fyrir Ís­land. Þess vegna eru þeir í hópnum. Aron hefur verið mjög virkur frá byrjun. Hann vill hjálpa inn á vellinum á æfingu til að hjálpa öðrum. Það er mjög mikil­vægt fyrir okkur að hafa svona karaktera í liðinu. Ég vil að okkar ungu leik­menn læri af þeim.

Gylfi er mættur aftur. Hann sagði við mig að hann væri búinn að bíða í tvö ár eftir því að snúa aftur í í lands­liðið. Hann myndi gefa annan fótinn til þess að eiga tæki­færi á að spila aftur fyrir ís­lenska lands­liðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×