Segja má að Swift sé stærsta poppstjarna í heiminum um þessar mundir og hefur samband hennar við Kelce vakið mjög mikla athygli. Swift hefur undanfarið verið að mæta á leiki með Kansas City Chiefs og er NFL deildin að nýta sér það til hins ítrasta.
Deildin greip til varna í gær eftir að bera fór á gagnrýni þess efnis að hún væri að einblína of mikið á samband Kelce við Swift í tengslum við umfjöllun leikja. Gagnrýnin kom frá íþróttaáhugafólki sem og Kelce sjálfum.
Áhorfið á leiki Kansas City Chiefs hefur aukist töluvert síðan sögusagnir um samband Kelce og Swift fóru á kreik Swift var sjálf á leik Chiefs gegn síðustu helgi gegn New York Jets og horfðu yfir 27 milljónir einstaklinga á útsendinguna frá leiknum. Er það mesta áhorf á leik á sunnudegi síðan að Super Bowl fór fram.
Fyrir leikinn voru sýndar auglýsingar um heimildarmyndina Taylor Swift: The Eras Tour þar sem poppstjörnunni er fylgt á tónleikaferðalagi sínu. Á meðan að leik stóð birtist hún yfir sautján sinnum í mynd í stúkunni og þá hefur NFL deildin notað hana óspart í því efni sem birt er á samfélagsmiðlareikningum deildarinnar.
Í yfirlýsingu frá NFL deildinni, þar sem að hún ver nálgun sína segir:
„Fréttirnar af Taylor Swift og Travis Kelce er stór menningarleg stund í poppsögunni. Við ákváðum að nýta okkur það þar sem þarna mætast skemmtanabransinn og íþróttirnar. Við höfum séð ótrúlegan fjölda góðra viðbragða við þessu.“
Þungamiðjan sé enn efni beintengt leikjum deildarinnar.
Í hlaðvarpsþætti með bróður sínum á dögunum sagði Kelce að NFL deildin væri að gera aðeins of mikið úr sambandi hans við Swift.
„Klárlega að gera mikið úr þessu, sér í lagi minni stöðu en ég held líka að deildinni þyki þetta bara skemmtilegt og vilji gera góða hluti úr þessu.“