„Þetta var bara rugl. Ég skil í raun og veru ekki sjálfur hvað átti sér stað þarna,“ segir Stefán Teitur í samtali við Vísi en fyrir þrennuna gegn Lyngby hafði hann skorað fimm mörk í 99 leikjum fyrir Silkeborg. „Ég átti þarna frammistöðu í fyrri hálfleik sem ég á eftir að muna eftir alla tíð.“
Stefán Teitur Þórðarson (f.1998)
— Áhugaverðar staðreyndir um íslenska knattspyrnu (@OReyndir) October 7, 2023
Silkeborg
Lyngby
Hat Trick
#Íslendingavaktin pic.twitter.com/e8q3d4ebV3
Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Stefáns Teits eftir að hann sneri til baka eftir meiðsli.
„Tilfinningin fyrir þennan leik var bara mjög góð. Þarna var ég að spila minn fyrsta byrjunarliðsleik á tímabilinu eftir að hafa komið til baka úr meiðslum. Ég var meiddur allt undirbúningstímabilið og hafði verið að koma inn sem varamaður í leikjunum á undan eftir að ég kom til baka. Ég er mjög ánægður með þessa frammistöðu mína og það gerir þetta extra sætt að hafa skorað þessa þrennu á móti Lyngby þar sem að ég þekki alla íslensku strákana þar.“
Lyngby er einmitt þjálfað af Frey Alexanderssyni og þar leika íslenskir leikmenn á borð við Gylfa Þór Sigurðsson, Andra Lucas Guðjohnsen, Sævar Atla Magnússon og Kolbein Finnsson.
Fylgja þessum leik einhver föst skot á þá frá þér?
„Nei ég held nú ekki. Ég spjallaði aðeins við Andra Lucas í gær og það var allt á góðu nótunum. Við erum það góðir félagar að það komu engin skot eða neitt þannig. Það kemur kannski seinna.“
En var eitthvað sem gaf til kynna hjá honum fyrir þennan leik að eitthvað sérstakt ætti eftir að eiga sér stað?
„Ég var búinn að eiga eitt fínt skot cirka tveimur mínútum fyrir fyrsta markið mitt og fann á þeirri stundu að ég var í góðum takti, að sama skapi var að ganga vel hjá liðinu á þeim tímapunkti. Svo hitti ég boltann svona rosalega vel í fyrsta markinu. Svo veit ég ekki alveg hvað gerist í kjölfarið. Allt í einu kemur annað markið og tveimur mínútum eftir það kemur þriðja markið. Eftir að hafa skorað þriðja markið vissi ég ekki hvað ég ætti að hugsa.“

Skilaboðin sem hann sendir með þessari frammistöðu sinni eru sérstök.
„Þetta var mín leið til þess að sýna að ég er mættur aftur. Að ég er mættur aftur upp á mitt besta eftir meiðslin. Sýna að ég er enn sá leikmaður sem á að byrja þessa leiki.“
Það er ljóst á fréttamiðlum í Danmörku að þessi þrenna Stefáns Teits hefur verið að vekja töluverða athygli. Verður hann þess var?

„Já ég get alveg sagt það. Ég er búinn að fá mjög mörg skemmtileg skilaboð eftir þessa þrennu og kann mjög vel að meta þau skilaboð. Það er ekki sjálfsagður hlutur að skora þrjú mörk á átta mínútum í svona góðri deild eins og danska úrvalsdeildin er orðin. Það er auðvitað eitthvað sem ég er mjög stoltur af og tek því bara glaður.“
Stefán Teitur á rúmt ár eftir af samningi sínum við Silkeborg.
Hver eru markmiðin hjá þér í nánustu framtíð?
„Að halda áfram að byrja inn á og reyna að spila eins vel og ég gerði gegn Lyngby. Skora fleiri mörk og halda liðinu í topp sex sætum deildarinnar. Það er auðvitað markmið hjá okkur að vera í sem bestu stöðu þegar að deildin fer í hlé í desember.

„Hvað samningsmál mín varðar þá mun ég pottþétt setjast biður með umboðsmanni mínum og forráðamönnum Silkeborg og sjá hvað félagið vill og hvað ég vil.“