Skoðun

Tengsla­rof barna­verndar, fyrr og nú

Sara Pálsdóttir skrifar

Kerfisbundið tengslarof barnaverndar gegn börnum og fjölskyldum þeirra á sér enn stað í dag árið 2023.

Nýlega var ill meðferð barnaverndar á börnum í vistun staðfest í rannsókn á starfsemi barnaverndar á svokölluðum vöggustofum.

„Í stuttu máli er niðurstaðan sú að börn hafi... sætt illri meðferð á Vöggustofunum sem lýsir sér helst í því að það var tekið fyrir allt samneyti foreldra við börnin á þessu tímabili. Þannig það verður ákveðið tengslarof“ – Kjartan Bjarni Björgvinsson formaður rannsóknarnefndar og héraðsdómari við héraðsdóm Reykjavíkur.

„Í skýrslunni kemur fram að foreldrum barna hafi verið meinað að umgangast börn sín meðan þau voru í vistun...“

„Tengsl við foreldra og fjölskyldur rofin“ – millifyrirsögn fréttatilkynningar Reykjavíkurborgar um skýrsluna.

Varðandi niðurstöðu sína um að börn hafi verið beitt illri meðferð segir rannsóknarnefndin:

„Lítur þá nefndin sérstaklega til aldurs barnanna og þeirra afdrifaríku afleiðinga sem skortur á tengslamyndun við foreldra, og eftir atvikum aðra umönnunaraðila, sem og skortur á örvun og skynáreitum, getur haft á heilbrigði og þroska barna.

„Fag­fólk fékk ábend­ing­ar og vissi bet­ur“, segir millifyrirsögn í frétt MBL um málið og samtal við Dag B Eggertsson.

„Þetta eru sann­ar­lega slá­andi niður­stöður og í raun ákveðið áfall,“ seg­ir Dag­ur.

„Áfallið felst í því að nefndin dregur fram að þessar aðferðir, ill meðferð á börnum, var þvert á þá þekkingu sem þegar lá fyrir fyrir þessum 50 til 70 árum sem liðin eru,“ segir Dagur og bendir á að fólk hafi vitað betur og því sé ekki hægt að skrifa þetta á þekkingarleysi.

Fag­fólk í þess­um efn­um hefði mátt vita bet­ur og fékk raun­ar ábend­ing­ar eins og fram kem­ur í skýrsl­unni að þetta væri ekki gott og þess vegna er það meg­inniðurstaða skýrsl­unn­ar að þetta verklag hafi falið í sér illa meðferð á börn­um. Það er auðvitað bara grafal­var­legt," seg­ir Dag­ur.

„Þó það geti verið ofboðslega sárs­auka­fullt að horfa svona í speg­il tím­ans erum við að gera það til þess að koma í veg fyr­ir að svona end­ur­taki sig og til þess að betr­um­bæta það sem við erum að vinna í á hverj­um degi.“

(tekið af frétt MBL dags. 5.10.23)

Þegar ég horfði á framangreindar fréttir og viðtöl leið mér eins og ég væri komin 20 ár fram í tímann og það væri verið að fjalla um rannsókn sem hefði verið gerð á starfsemi barnaverndar eins og hún er í dag. Í fjölmörgum pistlum og viðtölum hef ég bent á ofbeldi og illa meðferð barnaverndar á fjölskyldum í landinu sem felur einmitt í sér þetta hræðilega tengslarof sem er meginniðurstaða rannsóknarnefndar um vöggustofur og ástæðan fyrir því að um illa meðferð gegn börnum var að ræða.

Þann 6 apríl 2021birtist pistill á vísi undir fyrirsögninni „Grimmilegar umgengnistálmanir barnaverndarnefndar Reykjavíkur“

Þar rakti ég vinnubrögð barnaverndar Reykjavíkur þegar kemur að vistun barna utan heimilis, það fyrsta sem barnavernd gerir er að loka fyrir nánast alla umgengni barna við foreldra og stórfjölskyldu – barnavernd slítur tengslin:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur leyfir þér ekki að hitta börnin þín. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur leyfir þessum börnum ekki að hitta foreldra sína. Tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti, er normið. Þessi börn fá ekki að þekkja eða umgangast foreldra sína. Það er ekki hlustað á óskir barnanna, skýrsla talsmanns, aðeins formsatriði. Tengslin slitin fyrir fullt og allt, algert niðurbrot.“

Þann 20. maí 2021birti vísir pistil undir yfirskriftinni „Réttlaus fósturbörn á Íslandi“:

„Börn sem hafa verið svipt blóðforeldrum sínum eða blóðforeldri, iðulega vegna áfengis- og vímuefnavanda foreldrisins, eru útilokuð með öllu út úr lífi foreldra sinna og fjölskyldu, afa og ömmu, frænku og frænda, jafnvel systkina. Börnum þessum er komið fyrir hjá nýrri fjölskyldu, fósturforeldrum og fá ekki að hitta blóðfjölskyldu sína lengur. Maður getur vart ýmindað sér sársaukann sem afar og ömmur finna fyrir, þegar þau eru útilokuð út úr lífi barnabarnanna sinna vegna tímabundinna veikinda barns þeirra (blóðforeldrisins). Hvað þá börnin sjálf sem hafa engan til að gæta sinna hagsmuna eða réttinda.“

Svo rakti ég í pistlinum þau ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, stjórnarskrár og Barnasáttmála SÞ sem brotin eru með þessu kerfisbundna tengslarofi barnaverndar.

Þann 23. september 2021birist annar pistill á visi.is yfir yfirskriftinni ,,Rangar réttmeiri en fósturbörn á Íslandi“

Það hélt ég áfram harðri gagnrýni á mannréttindabrotin og sálræna og tilfinningalega ofbeldið sem felst í umgengnistálmunum og tengslarofi fósturbarna við fjölskyldur sínar:

„Eitt dæmi um alvarleg mannréttindabrot barnaverndar sem viðgangast eru grimmilegar umgengnistálmanir sem ég hef áður fjallað um . Ef foreldri sem misst hefur barn frá sér, iðulega vegna sjúkdómsins alkohólisma, er barninu refsað með því að takmarka umgengni barnsins við foreldri sitt við 2-4 skipti á ári, undir eftirliti, í hrörlegu og kuldalegu húsnæði á vegum barnaverndar. Er þetta gert undir þeim formerkjum að það verði að ,,vernda stöðugleika og ró barnsins í fóstri“ og að markmið með umgengni séekkiað halda tengslum milli foreldris og barns heldur að barn ,,þekki uppruna sinn“. Þannig má ekki ,,raska ró og stöðugleika barnsins“ með því að virða sjálfsögð og lögbundin mannréttindi þess til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri sitt með reglubundnum hætti, líkt og kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sbr. einnig 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. Stjórnarskrár Íslands. Hið ólögmæta markmið barnaverndar er því algert tengslarof milli foreldris og barns.“

29. september 2022 birtist pistill á visi.is undir yfirskriftinni ,,Þegar börnum er refsað fyrir veikindi foreldra – ómannúðleg og vanvirðandi meðferð barnaverndar á þegnum landsins“

Í þeim pistli fjallaði ég um bann stjórnarskrár við pyntingum og grimmilegri meðferð stjórnvalda á þegnum landsins, og heimfærði kerfisbundið tengslarof barnaverndar gegn börnum og fjölskyldum í landinu undir það bann:

„Í barnaverndarkerfi Íslendinga eru einstaklingar og börn á degi hverjum látin sæta pyntingum, ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Núna verður þetta rökstutt með vísan til vinnubragða barnaverndar og laga. Hvað gerir barnavernd barni, sem taka þarf að heimili vegna óreglu?

Barnavernd á Íslandi telur sig engar skyldur bera til að leitast eftir því að vista barn innan stórfjölskyldunnar. Þvert á móti, hefur framkvæmdin iðulega verið þannig, að barnavernd reynir eftir fremsta megni að vista barn utan stórfjölskyldu, hjá algerlega ótengdum, bláókunnugum fósturforeldrum. Oft búa þeir jafnvel í öðrum landshluta. Þegar meðlimir stórfjölskyldu leitast eftir að fá barnið til sín, t.d. ömmur eða frænkur/frændur eða návinir foreldra, er þeim yfirleitt synjað. Barnavernd lítur á ,,raskið“ sem fylgir því að slíta öll tengsl barnsins ekki bara við foreldri sitt eða foreldra, heldur líka öll tengsl við ömmur og afa, leikskólann og starfsmenn þar og önnur börn, vini sína, nærumhverfi og stórfjölskyldumeðlimi, sem ,,óhjákvæmilegt rask“ þegar barn er sett í fóstur. Oft er barnavernd að taka barn frá foreldri þar sem foreldrið ,,skortir innsæi í þarfir barnsins“, en á sama tíma sýnir barnavernd fullkominn skort á innsæi inn í hið sálræna áfall sem slíkt tengslarof og rask veldur litlu barni, sem er plantað á ókunnugt heimili, hjá ókunnugu fólki, í nýjan leikskóla, nýjar reglur og oft án fullnægjandi útskýringa. Og það á afar viðkvæmum tíma fyrir barnið, sem þarf á stórfjölskyldu sinni að halda meira en nokkru sinni fyrr.“

Þann 16. desember 2022 birtist pistill á visi.is undir yfirskriftinni ,,Ofbeldi barnaverndar gegn börnum og fjölskyldum á Íslandi í dag“

Það gagnrýndi ég félagslegt og andlegt ofbeldi barnaverndar sem felst í þessu tengslarofi barna við fjölskyldur sínar og foreldra, sem og ómannúðlegt og grimmilegt umhverfið sem þeim er boðið upp þau fáu skipti sem þau fá að hittast. Það er kannski ekki gler á milli þeirra, en þau eru í sérstöku húsnæði á vegum barnaverndar með ókunnugan eftirlitsaðila að fylgjast með sér, hlusta á allt sem fer fram, horfir á allt sem fer fram. Svo eftir umgengnina, sem er 2 á ári í 2 klukkustundir í senn, er skrifuð skýrsla um þig:

„M.ö.o. gerir barnavernd engan greinarmun á fjölskyldumeðlimum barns annars vegar og hins vegar ókunnugum fósturforeldrum. Slíkt ber ríkan vott um virðingarleysi barnaverndar fyrir tengslum barnanna við fjölskylduna sem varin er í stjórnarskrá og af mannréttindasáttmálum, bæði Evrópu og svo barnasáttmálanum. Barnavernd gengur hins vegar enn lengra en það, og leitast sérstaklega eftir því að vista börnin utan fjölskyldunnar, hjá ókunnugu fólki, oft langt í burtu. Þá eru tengsl barnanna ekki aðeins rofin við foreldra, ömmu og afa, alla stórfjölskylduna, heldur eru börnin rifin af leikskólanum sínum eða skóla, frá starfsfólkinu þar og vinum sínum, frá nærumhverfi og komið fyrir á nýju heimili, með nýja foreldra, nýjan leikskóla, nýtt umhverfi, nýjar reglur. Þá eru börnunum bannað að hitta foreldrana sína eða stórfjölskyldu, nema 1-4 skipti á ári, undir eftirliti ókunnugrar manneskju, sem horfir á allt og hlustar á allt sem fer fram. Passar að ekki sé sagt neitt sem ekki má segja. Í hrörlegu húsnæði á vegum barnaverndar. Og það jafnvel þótt ástandið sem leiddi til þess að börnin voru tekin frá foreldrum sínum sé löngu afstaðið, foreldrarnir eða foreldrið orðið edrú, reglusamt og þráir ekkert meira en að elska barnið sitt og fá að sinna því, þá heldur þessi þvingaði aðskilnaður, eftirlit og einangrun áfram.“

Í framhaldi af þessum pistli fór ég í viðtal hjá Frosta í Spjallinu og ræddi þessi brot. Þá mætti ég einnig í viðtal í Bítið til að ræða þessi brot.

30. mars 2023 birtist pistill á visi.is undir fyrirsögninni ,,Félagslegt ofbeldi barnaverndar“

„Í störfum sínum keppist barnavernd við að slíta öll tengsl fósturbarna við blóðfjölskyldur sínar, við rætur sínar, við líf sitt...

Þau eru rifin frá öllum sem þau elska og þekkja og þeim er bannað að hitta fólkið sitt. Þeim er bannað að hitta mömmu og pabba, bannað að hitta ömmu og afa, frænku og frænda og jafnvel bannað að hitta systkini sín.

Barnavernd hefur ekkert innsæi í það alvarlega trauma sem slíkt tengslarof felur í sér, viðvarandi áfallastreitu og stöðugan sársauka.“

Í pistli sem birtist á visi.is 28. apríl 2023 var fyrirsögnin ,,Börnunum sem var rænt“

Þar fjallaði ég um lagalegu skyldur barnaverndar til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vista barn innan stórfjölskyldunnar, fremur en hjá ókunnugu fólki sem þau hafa engin tengsl við. Hingað til hefur barnavernd gert þveröfugt:

„Barnavernd gengur framhjá þessum fjölskyldumeðlimum, án skýringa eða haldbærra skýringa, og vistar börnin frekar hjá gjörókunnugu fólki, á nýju heimili, á nýjan leikskóla, í nýtt sveitarfélag, og í framhaldi eru öll tengsl barnanna við fjölskylduna slitin. Þeim er bannað að hitta afa og ömmu, mömmu og pabba, frænku og frænda. Þau fá ekki að mæta í jólaboð, afmæli eða baka piparkökur hjá ömmu um jólin. Þau fá jafnvel ekki að hitta systkini sín. Og þau hafa ekkert um það að segja hvert þau fara og fá jafnvel litlar sem engar upplýsingar um það eða hvað er að gerast. Svo eiga þessi börn bara að ,,aðlagast“.“

Það er alveg sama hversu mikið og oft ég hef haldið þessu fram við barnaverndarnefndirnar sjálfar, sem og starfsmenn barnaverndanna. Ekkert mark er tekið á orðum mínum og hið kerfisbundna tengslarof heldur áfram. Sama á við um úrskurðarnefnd Velferðarmála, sem gengur jafnvel enn lengra í kerfisbundu tengslarofi en nefndirnar sjálfar.

Í viðtali við Dag B Eggertsson kom m.a. fram að fjölmargir aðilar reyndu að benda á hina illu meðferð á börnum sem voru vistuð á vöggustofum en á því var ekki tekið mark. Nákvæmlega sama hefur verið uppi í dag.

Nú hefur rannsóknarnefnd Vöggustofa staðfest að tengslarof barnaverndar feli í sér illa meðferð gegn börnum. Að tengsl barna við blóðfjölskyldur sínar séu það mikilvægasta í lífi þeirra og það megi ekki rjúfa. Í þessari nefnd sátu m.a. bæði héraðsdómari og sálfræðingur.

Hvað ætlar barnavernd að gera núna?

Hvað ætlar úrskurðarnefnd Velferðarmála að gera núna?

Halda áfram að rjúfa tengsl fósturbarna við fjölskyldur sínar kerfisbundið næstu ár og áratugi?

Það er komin skýr krafa um heilbrigt, réttlátt barnaverndarkerfi þar sem tengsl barna við foreldra sína og stórfjölskyldu eru virt. #Börninheim

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×