Þetta fullyrðir Morgunblaðið. Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármála-og efnahagsráðherra síðastliðinn þriðjudag vegna mats umboðsmanns Alþingis á hæfni hans við söluna á Íslandsbanka.
Formenn stjórnarflokkanna hafa efnt til blaðamannafundar klukkan 11:00. Þar verða breytingarnar kynntar og verður fundurinn í beinni útsendingu á Vísi.
Klukkan 14:00 í dag hefst svo ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Þar munu ráðherraskiptin fara fram. Stjórnarþingmenn funduðu í gær á Þingvöllum og sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra við fréttastofu að fundurinn væri ótengdur afsögn Bjarna sem fjármálaráðherra.
Hún sagði þó að undanfarnir dagar hefðu gefið ríkisstjórninni tækifæri til að ræða verkefnin framundan. Katrín segist telja að ríkisstjórnin standi styrkum fótum eftir atburði síðustu daga.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagði í samtali við fréttastofu í gær að vel kæmi til greina að Bjarni myndi taka annan ráðherrastól. Sagðist hann virða ákvörðun Bjarna um að stíga til hliðar sem fjármála-og efnahagsráðherra.