Leiðtogi Borgaravettvangsins í Póllandi, Donald Tusk, hefur hvatt forseta landsins, Andrzej Duda, til þess að fresta því ekki of lengi að kalla þing saman. Kosningar fóru fram um helgina í Póllandi þar sem þrír stjórnarandstöðuflokkar í Póllandi, sem börðust gegn stjórnarflokknum Lögum og réttlæti, náðu að tryggja sér meirihluta þingsæta í þingkosningunum.
Samkvæmt lögum hefur forseti landsins 30 daga til að kalla þing saman á ný í kjölfar kosninga. Eftir það verður að tilnefna einhvern í embætti forsætisráðherra sem hefur svo 14 daga til að tryggja sér meirihluta í atkvæðagreiðslu á þingi í embættið. Fjallað er um málið á vef CNN.
Tusk, sem leiðtogi Borgaravettvangsins, er líklegastur til að ná þingmeirihluta með Nýja vinstrinu og Þriðju leiðinni en flokkarnir tveir hafa báðir gefið það út að þeir vilji mynda nýja ríkisstjórn með flokki Tusk.
„Herra forseti, vinsamlegast taktu kröftuga og fljóta ákvörðun. Lýðræðislegu flokkarnir sem fóru með sigur af hólmi eru tilbúnar að takast á við þá ábyrgð að stjórna landinu. Fólkið bíður!“ sagði Tusk í yfirlýsingu til forsetans í gær.
Búist er við því að ríkisstjórnarviðræður muni taka nokkurn tíma. Lög og réttlæti sem hefur leitt landið síðustu átta árin fékk flest atkvæði en missti þingmeirihluta og er því ekki líklegt að flokkurinn geti myndað ríkisstjórn. Leiðtogi flokksins og núverandi forsætisráðherra Mateusz Morawiecki hefur sagt að þau ætli að reyna það en möguleikar þeirra eru litlir á að ná því.
Nýttu ríkisfjármuni og fjölmiðla með óeðlilegum hætti
Tusk lofaði því í kosningabaráttunni að endurreisa lýðræðisleg norm í Póllandi og að auka á ný samvinnu við aðra evrópska leiðtoga.
Í yfirlýsingu frá kosningaeftirliti ÖSE, sem fylgdist með kosningunum í Póllandi, segir að kosningarnar hafi verið háðar á ójöfnum velli. Lög og réttlæti hafi staðið betur að vígi en aðrir flokkar vegna óviðeigandi notkunar þeirra á bæði fjölmiðlum og ríkisfjármunum í kosningabaráttunni. Þar kom þó einnig fram að kosningaþátttaka hafi verið afar góð og að kjósendum hafi staðið margir valmöguleikar til boða í frjálsum og opnum kosningum. Áhrif á fjölmiðla og notkun á ríkisfjármunum hafi þó sett svartan blett á framkvæmdina.