Handbolti

Sigur­steinn Arn­dal: Hann var stór­kost­legur sóknar­lega

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH. Vísir/Diego

FH vann átta marka sigur á ríkjandi Íslandsmeisturum, ÍBV, í Kaplakrika í kvöld. Lokatölur 35-27. Með sigrinum styrkti FH stöðu sína í öðru sæti Olís-deildarinnar og eru aðeins einu stigi á eftir toppliði Vals.

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var að vonum sáttur að leikslokum. Honum fannst liðið þó spila illa varnarlega í fyrri hálfleik en FH-ingar voru skrefi á eftir Eyjamönnum í fyrri hálfleik. Aron Pálmarsson tryggði þó það að jafnt var í hálfleik, 14-14.

„Í fyrri hálfleik spilum við ágætis sóknarleik, allt of softvarnarlega. Vorum bara með fimm brotin fríköst og ekkert frumkvæði í okkar varnarleik en það kom svo sannarlega í seinni hálfleik þar sem allt annað var upp á teningnum og þess vegna unnum við þennan sigur í dag,“ sagði Sigursteinn.

„Við komum sterkt inn í seinni hálfleik. Síðustu fimm í fyrri hálfleik var einhver vísir af varnarleik sem fylgdi okkur svo bara áfram og byrjuðum mjög sterkt varnarlega í seinni hálfleik.“

FH kom að fítonskrafti inn í síðari hálfleikinn og skoraði fyrstu fimm mörkin og kom sér þar með í vænlega stöðu það sem eftir lifði leiks. Aðspurður hvað var farið yfir í hálfleiknum hafði Sigursteinn þetta að segja.

„Við fórum aðeins yfir þá grunnþætti sem þurfa að vera til staðar til að spila varnarleik.“

Aron Pálmarsson, fyrirliði FH, var kominn með tvær tveggja mínútna brottvísanir eftir um 20 mínútna leik og spilað því aðeins í uppstilltum sóknarleik heimamanna sem eftir lifði leiks. Aron var því allt í öllu í sóknarleik FH það sem eftir lifði leiks og endaði með 9 mörk og 4 stoðsendingar í leiknum

„Hann var stórkostlegur sóknarlega allan leikinn og mögulega hjálpaði honum það eitthvað að geta fengið pásuna varnarlega. Auðvitað hefðum við betur viljað að vera lausir við tvisvar tvær í fyrri hálfleik,“ sagði Sigursteinn.

Nú er komið hlé í Olís-deildinni vegna landsleikja. FH-ingar ætla að nýta þá pásu vel enda mikil törn hjá liðinu fram að jólum.

„Það er bara nóg af verkefnum. Erum núna búnir með tvær umferðir í Evrópu og eigum aðra fram undan núna fyrir jól. Núna þurfum við að nýta næstu tíu daga til tvær vikur í að undirbúa okkur fyrir næstu periodu af leikjum sem kemur og við verðum klárir,“ sagði Sigursteinn Arndal að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×