Gríðarmikil umræða hefur skapast í samfélaginu um séra Friðrik Friðriksson, stofnanda KFUM eftir viðtal sem Egill tók við Guðmund Magnússon sagnfræðing á dögunum. Guðmundur er höfundur nýrrar bókar um séra Friðrik þar sem greint er frá því að sá síðarnefndi hafi leitað á og káfað á ungum dreng. Þá lýsi fjöldi drengja því að hafa ekki líkað við atlot hans. Í viðtalinu við Egil sagðist Guðmundur næstum hafa hætt við verkið, honum hafi þótt þetta svo óþægilegt.
Steinhissa á hversu margir tjá sig án þess að hafa lesið bókina
Í færslu á Facebook fyrir skömmu minnir Egill á að viðtal hans við Guðmund fjalli um bók sem sé fimm hundruð blaðsíður.
„Þar er gríðarlega mikið af upplýsingum enda leitaði Guðmundur í bréfa- og skjalasöfn við vinnslu bókarinnar. Upp úr þessu hefur sprottið heilmikil umræða í samfélaginu. En ég er steinhissa á því hversu margir tjá sig án þess að hafa lesið bókina - ég hefði haldið að lestur hennar væri ákveðin forsenda á þessu stigi málsins. Að menn kynni sér málavöxtu í stað þess að stökkva fram með tal um að "alltaf hafi verið orðrómur,““ skrifar Egill.
Þá segir Egill heldur ekki liggja á að „rífa niður styttu eða fá viðbrögð eða fordæmingu allra sem tengjast málinu.“
„Séra Friðrik hefur verið í gröfinni í 62 ár en bókin kom út núna í vikunni. Lesið hana - hún er grundvöllur þessarar umræðu ekki félagsmiðlarnir eða tilfinning fyrir því að hlutirnir hafi verið svona eða hinsegin.“