Viggó er að glíma við meiðsli á hendi sem halda honum frá komandi landsleikjum Íslands.
„Ég mun halda heim til Íslands en mun ekki geta spilað þessa tvo leiki með íslenska landsliðinu vegna meiðsla,“ segir Viggó í samtali við þýska miðilinn Bild.
Um er að ræða fyrstu leiki íslenska landsliðsins undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar og þjóna þeir mikilvægu hlutverki í undirbúningi liðsins fyrir komandi Evrópumót sem fer fram í Þýskalandi í janúar á næsta ári.
Hér heima á Íslandi getur Viggó fengið hvíld sem og meðhöndlun við meiðslum sínum. Þá mun Íslendingurinn hitta fyrir landsliðsþjálfarann.
„Auðvitað hefði ég allra helst viljað spila þessa landsleiki en meiðslin hafa verið að plaga mig undanfarnar þrjár vikur og ég þarf að hvíla núna.“
Viggó, sem hefur farið á kostum undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar hjá Leipzig á yfirstandandi tímabili, fær því kærkomna hvíld og mun geta snúið aftur á völlinn þegar liðið mætir Rhein-Neckar Löwen þann 9. nóvember næstkomandi.