Marki yfir allan leikinn en misstu for­ystuna í uppbótartíma

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mario Lemina fagnar markinu með Hwang Hee-Chan.
Mario Lemina fagnar markinu með Hwang Hee-Chan. vísir / getty

Laskaðir lærisveinar Ange Postecoglou hjá Tottenham fengu tvö mörk á sig í uppbótartíma eftir að hafa verið marki yfir í nítíu mínútur, lokatölur urðu 2-1 sigur Wolves og Tottenham mistókst að endurheima toppsæti deildarinnar. 

Christian Romero og Destiny Udougie voru báðir í leikbanni eftir að hafa litið rautt spjald í 4-1 tapinu gegn Chelsea síðasta mánudag. James Maddison og Micky Van de Ven meiddust báðir í leiknum og snúa ekki aftur til leiks fyrr en á næsta ári.

Miðvarðaparið Romero og Van de Ven höfðu byrjað alla leiki saman í vörn Tottenham fyrir þennan. Eric Dier og Ben Davies stilltu sér upp í þeirra stað.

Brennan Johnson, leikmaður Tottenham, skartaði búkmyndavél í upphitun fyrir leik. Algjör nýjung í útsendingum ensku úrvalsdeildarinnar sem veitir áhorfendum betri innsýn til leikmanna.

Tottenham voru mun betra liðið fyrstu mínúturnar og Wolves náðu varla snertingu á boltann. Brennan Johnson skoraði opnunarmark leiksins og sitt fyrsta mark fyrir Tottenham strax á 3. mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri bakverðinum Pedro Porro.

Úlfarnir tóku svo yfir leikinn þegar líða fór á og buðu upp á skemmtilegan sóknarleik en leituðu lengi að jöfnunarmarkinu við lítinn árangur. Hwang Hee Chan klúðraði dauðafæri í upphafi seinni hálfleiks þar sem hann stóð einn fyrir opnu marki en hitti ekki á rammann.

Það var ekki fyrr en undir blálokin að Pablo Sarabia kom boltanum í netið fyrir heimamenn eftir góða fyrirgjöf frá Matheus Cunha. Sarabia hafði komið inn sem varamaður aðeins þremur mínútum áður.

Mikill hiti færðist í leikinn á lokamínútunum og menn tókust hart á. Tveir leikmenn Wolves fengu að líta gult spjald í uppbótartíma, rétt áður en Mario Lemina skoraði sigurmarkið fyrir þá á 97. mínútu. Aftur átti varamaðurinn Pablo Sarabia stóran hlut í máli, en hann brunaði upp hægri kantinn og stakk boltanum inn fyrir á Lemina sem kláraði færið.

Ótrúlegur viðsnúningur á skömmum tíma skilaði Wolves sigrinum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira