Albert hefur verið að spila vel fyrir Genoa í ítölsku Serie A deildinni á tímabilinu og er búinn að skora fimm mörk í tólf leikjum hingað til.
Frammistaða hans hefur vakið athygli víða og hefur Albert verið orðaður við nokkur stórlið, meðal annars Tottenham og Roma.
Fabrizio Romano greinir hins vegar frá því á samfélagsmiðlinum X nú síðdegis að Albert muni á næstunni skrifa undir nýjan langtímasamning við Genoa. Núgildandi samningur hans við liðið rennur út sumarið 2026.
Albert er ekki í landsliðshópi Íslands sem mætir Slóvakíu á morgun þar sem hann kemur ekki til greina í landsliðið á meðan beðið er niðurstöðu í rannsókn á máli hans hjá lögreglu. Albert var kærður fyrir kynferðisbrot í sumar og stendur rannsókn málsins enn yfir.