Gylfi Þór Þorsteinsson, teymisstjóri fjáröflunar- og kynningarsviðs Rauða krossins á Íslandi, segir að meginþorri þeirra fjármuna sem safnast í söfnuninni, muni renna óskiptur til Grindvíkinga. Hluti fari þó í það að efla búnað Rauða krossins. Þar nefnir hann til að mynda búnað sem þarf í fjöldahjálparmiðstöðvar, bedda, sængur og annað.
„Við höfum gert svonalagað áður og þá höfum við sett af stað söfnunarnefnd, sem hefur síðan úthlutað að söfnun lokinni til þeirra sem helst þurfa á að halda.“
Fer vel af stað en oftast hægir á
Hann segir að söfnuninni hafi verið ýtt úr vör fyrir um viku síðan og vel hafi gengið hingað til.
„Eins og venjan þá fara svona safnanir alltaf vel af stað í upphafi og svo hægist á. Nú er söfnunin búin að vera í viku og hefur gengið nokkuð vel, Við erum bara nokkuð ánægð með viðtökurnar, bæði einstaklingar og fyrirtæki hafa verið að leggja söfnuninni lið með einum eða örðum hætti, sem er mjög gott. Við náttúrulega hvetjum fólk til þess að líta við á heimasíðunni okkar, redcross.is, þar eru allar upplýsingar um hvernig er hægt að styrkja söfnunina.“
Náðu að loka öllum fjöldahjálparmiðstöðvum fljótt
Þá segir Gylfi Þór að tekist hafi að loka öllum fjöldahjálparmiðstöðvunum og koma öllum sem þær sóttu í tímabundið húsnæði.
„Það er tímabundið en var þó öruggara húsnæði en íþróttasalur í nokkra daga. Þannig að fjöldahjálparstöðvunum hefur verið lokað en nú hefst náttúrulega áfram næsti fasi við þessa uppbyggingu, að útvega fólkinu húsnæði. Rauði krossinn er að aðstoða við það ásamt Grindvíkingum sjálfum, Grindavíkurbæ, og það er að ganga ágætlega líka.“