Handknattleikssamband Íslands staðfestir í dag að Elín Klara hafi þurft að draga sig úr íslenska landsliðshópnum vegna meiðslanna og Arnar Pétursson hefur kallað Kötlu Maríu Magnúsdóttur, leikmann Selfoss, í hennar stað.
Elín Klara meiddist á ökkla á æfingu með Haukum í síðustu viku. Hún lék ekki síðasta leik Haukanna fyrir HM- og jólafrí og nú er orðið ljóst að hún nær sér ekki góðri fyrir heimsmeistaramótið.
HM kvenna hefst 30. nóvember næstkomandi. Ísland leikur í D-riðli í Stavanger og mætir Slóveníu, Frakklandi og Angóla í riðlinum. Landsliðið tekur þátt í Posten Cup í Lillehammer og Hamar í aðdraganda HM og er fyrsti leikur þeirra á fimmtudaginn gegn Póllandi.
Elín Klara hefur fylgt eftir frábæru tímabili í fyrra og er með 7,5 mörk og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik samkvæmt tölfræði HB Statz. Hún var líka búin að vinna sig inn í hlutverk hjá íslenska A-landsliðinu.
Þetta er mikið áfall fyrir íslenska landsliðið sem er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót í ellefu ár.
Verst er þetta auðvitað fyrir Elínu Klöru sjálfa sem hefur slegið í gegn með frábærri frammistöðu sinni síðustu ár.