Lokatölur voru 23-33 og því tíu marka tap hjá Haukum en Ásgeir virtist vera ráðalaus í viðtali.
„Já, það sem við buðum upp á í kvöld er öllum til skammar og það er ekkert flóknara en það,“ byrjaði Ásgeir Örn að segja.
„Þessi leikur spilaðist nákvæmlega eins og seinni hálfleikurinn gegn Selfossi, algjört framhald af þeim leik og leikmenn nánast ekki með sjálfstraust til þess að hlaupa fram yfir miðju án þess að gera mistök.“
Ásgeir varð spurður út í viðsnúninginn sem átti sér stað þegar Fram tók forystuna eftir um það bil tíu mínútna leik en hann virtist eiga fátt um svör.
„Ég hef í rauninni engar alvöru útskýringar á þessu, því miður, ég hélt að við myndum ekki mæta svona til leiks og ég bjóst við allt öðru frá liðinu. Ég er bara svolítið strand með þetta.“
Ásgeir var síðan spurður út í framhaldið og framtíð hans með liðið.
„Ég auðvitað ber ábyrgð á liðinu og frammistöðu þess og því á ég ekkert að sleppa við neina gagnrýni, ég átta mig alveg á því,“ endaði Ásgeir Örn Hallgrímsson á að segja.