Ragnheiður Arnardóttir, systir Eddu Bjarkar, segir í samtali við Vísi að um tuttugu bílum hafi verið lagt við og á afleggjaranum við fangelsið. Markmiðið sé fyrst og fremst að vekja athygli stjórnvalda á máli Eddu Bjarkar og því að til standi að afhenda hana norskum yfirvöldum í skjóli nætur.
Í gærkvöldi var greint frá því að fangelsinu hefði borist símtal frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra um að Edda Björk yrði sótt í fangelsið í kvöld og í framhaldinu flutt til Noregs.
Ragnheiður segir fjölskylduna ekki geta haft neitt samband við Eddu Björk síðan um klukkan 22 í gærkvöldi, enda ljúki símatíma fangelsisins þá. Heimildir hennar innan úr fangelsinu hermi að til standi að flytja Eddu Björk klukkan 05 í nótt.
Gera allt til þess að hindra flutninginn
Ragnheiður segir að lögregluþjónar hafi verið á vettvangi fyrr í nótt og sagt viðstöddum að færa þyrfti bílana af veginum til þess að sjúkrabíll gæti komist um veginn. Enginn sjúkrabíll sé þó kominn og lögregluþjónarnir séu nú á bak og burt.
Aðspurð segir hún hópinn munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að Edda Björk verði flutt í nótt. Hann muni til að mynda ekki hika við að þvera veginn með bílum sínum ef til þess ráðs þarf að grípa.

Þá segir hún að í ofanálag við þá tuttugu bíla og farþega þeirra sé von á fleirum. Fólk muni helst koma á fimmta tímanum þegar gert er ráð fyrir flutningnum úr fangelsinu.
Eru ekki bjartsýn
Ragnheiður segir þó að um friðsamleg mótmæli sé að ræða og að þeim sé fyrst og fremst ætlað að vekja athygli stjórnvalda á málinu. Aðstandendur hennar skilji einfaldlega ekki málsmeðferðina og hvers vegna ákvörðun um að flytja Eddu Björk í nótt hafi verið tekin. Þá sé einnig óskiljanlegt að sú ákvörðun virðist hafa verið tekin af stoðdeild Ríkislögreglustjóra en ekki Ríkissaksóknara, sem fer með afhendingu eftirlýstra manna til erlendra yfirvalda.
Verjandi Eddu hafi í kvöld og í nótt haft samband við bæði héraðsdóm og Ríkislögreglustjóra, sem hvorugur hafi kannast við að hafa tekið ákvörðunina.
Jóhannes Karl Sveinsson, verjandi Eddu Bjarkar, sagði í samtali við Vísi í gærkvöldi að hann hefði gert kröfu til þess héraðsdómara, sem kvað upp gæsluvarðhaldsúrskurð yfir Eddu, að hann úrskurði þegar í stað, á grundvelli laga um meðferð sakamála, að Edda Björk yrði ekki afhent úr varðhaldinu fyrr en Landsréttur hefur úrskurðað í málinu.
Ragnheiður segir að af gefinni reynslu séu aðstandendur Eddu Bjarkar ekki bjartsýnir á það að stjórnvöld geri nokkuð í málinu, þrátt fyrir mótmælin.
„Það er ótrúlegt að enginn skuli hafa tekið upp hanskann fyrir hana og börnin hennar miðað við allt sem hefur gengið á.“